Innlent

Segir rof á milli veruleika og skynjunar forsætisráðherra sem hendi sprengjum í allar áttir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Steingrímur J. Sigfússon.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Steingrímur J. Sigfússon. Vísir/Vilhelm/Daníel
Venju samkvæmt var rætt um fundarstjórn forseta við upphaf þingfundar á Alþingi. Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýna enn harðlega dagskrá þingsins þar sem enn er að finna umræðu um breytingatillögu meirihluta atvinnuveganefndar vegna rammaáætlunar.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar lýstu hver á fætur öðrum yfir vonbrigðum sínum með það hversu illa hvítasunnuhelgin hafi verið nýtt í að finna lausn á málinu. Ljóst hafi verið á föstudaginn við lok þingfundar að upplausn væri á Alþingi vegna „þrjósku“ stjórnarmeirihlutans um að hafa rammaáætlun áfram á dagskrá.

Þá gagnrýndi Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, að engin starfsáætlun væri komin fyrir þingið í staðinn fyrir þá sem forseti felldi úr gildi á föstudaginn.

Sigmundur Davíð fékk að heyra það

Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, gagnrýndi svo forsætisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrir að labba úr þingsal áður en fyrsti ræðumaður tók til máls um fundarstjórn forseta en ráðherrann hafði komið sér fyrir til að svara óundirbúnum fyrirspurnum.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, lét forsætisráðherra einnig heyra það.

„Það bar til tíðinda um helgina að hæstvirtur forsætisráðherra kom í leitirnar um helgina sem búið var að auglýsa mikið eftir hér og óska eftir til umræðna í þinginu, en hann kom í leitirnar í fjölmiðlum. Þar var hann með ýmsar skeytasendingar og útlistanir sem beindust að þjóðinni, verkalýðshreyfingunni og stjórnarandstöðunni.“

Svandís Svavarsdóttir.Vísir/Daníel
Stórkostlegir hugsuðir á Alþingi sem hugsa svipað

Steingrímur sagðist svo velta því fyrir sér hverjum Sigmundur Davíð væri með í liði því ekki væri hann í liði með þjóðinni eða aðilum vinnumarkaðarins.

„Hann skorar endalaus sjálfsmörk. Ég held að stjórnarliðið þurfi að setja mann á hæstvirtan forsætisráðherra í vörninni svo hann skori ekki svona í eigin mark. [...] Ef einhvers staðar er í gangi rof á milli veruleika og skynjunar forsætisráðherra sem les svona í stöðuna. Að ætla svona að bæta um betur yfir helgina með því að henda sprengjunum í allar áttir.“

Fundarstjórn forseta var rædd í um 45 mínútur og tók svo við óundirbúinn fyrirspurnatími þar sem forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra og sjávar-og landbúnaðarráðherra sátu fyrir svörum. Að honum loknum var gert hálftíma langt hlé á þingfundi fyrir þingflokksfundi en Svandís Svavarsdóttir óskaði eftir hléinu í umræðunni um fundarstjórn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×