Innlent

Verkalýðsforkólfar í meiri stjórnarandstöðu en þingmenn

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sakar suma forystumenn verkalýðshreyfingarinnar um að hafa gengið of langt í að nýta sér stöðu sína í pólitískum tilgangi í baráttunni við stjórnvöld.  

Hann var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag þar sem hann ræddi þessi mál.

„Eins og margir hafa sjálfsagt tekið eftir þá eru kjaradeilur nú eða staðan á vinnumarkaðnum um margt pólitískari en við höfum séð áður. Við sjáum það meðal annars birtast í yfirlýsingum sumra, alls ekki allra, en sumra af forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar sem að tala fyrst og fremst út frá pólitík. Út frá afstöðu sinni til stjórnarflokkanna frekar en út frá hagsmunum skjólstæðinga sinna. Því það eru auðvitað hagsmunir skjólstæðinga forystumanna verkalýðshreyfingarinnar að mönnum takist að verja kaupmáttinn. Að mönnum takist að gera samninga sem að tryggja raunverulega betri kjör en menn nýti ekki ástandið núna til þess að ná fram einhverjum pólitískum markmiðum eða senda pólitísk skilaboð,“ segir Sigmundur Davíð.

Aðspurður um hvaða forystumenn verkalýðshreyfingarinnar Sigmundur Davíð sé að tala um vísar hann í þá sem hafa verið virkir í stjórnarandstöðuflokkunum. „Ég ætla nú ekki svo sem að fara að gefa þeim einkunn hverjum fyrir sig en þetta eru ekki hvað síst þeir sem að hafa verið virkir í stjórnarandstöðuflokkunum, sem að eru orðnir þeim mun meiri stjórnarandstæðingar núna, heldur en jafnvel þingmenn í stjórnarandstöðunni,“ segir Sigmundur Davíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×