Hæstiréttur hefur hingað til aldrei staðfest dóm um rangar sakargiftir yfir konu sem áður hefur kært kæranda fyrir kynferðisbrot. Þann 29. október síðastliðinn sýknaði Hæstiréttur konu af röngum sakargiftum en hún hafði verið dæmd fyrir héraðsdómi.
Íslensk kona var í júní sakfelld í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að saka átta manns um kynferðisbrot, þar á meðal þrjú sem ekki voru í samkvæminu þar sem brotið á að hafa átt sér stað í. Meðal annars sagði hún mann hafa stungið fingri í endaþarm hennar og annan hafa sprautað hana með sprautunál í andlit og leggöng.

Árið 2014 barst 31 kæra um rangar sakargiftir til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þær geta verið margvíslegar og snúa ekki allar að kynferðisbrotum.
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir rithöfundur hefur skorað á þingmenn að setja lög sem banni kærur um rangar sakargiftir fyrr en kynferðisbrotamál hefur verið til lykta leitt í kerfinu. Hún segir á Facebook-síðu sinni að starfandi lögmenn hafi bent á að kærur um rangar sakargiftir séu augljós tilraun til að afvegaleiða rannsókn kynferðisbrotamála og draga úr þrótti brotaþola.

„Oft á tíðum eru bara tveir til frásagnar. Ef við metum sem svo að það liggi ekki fyrir nægilega sterk sönnunargögn í kynferðisbroti þá er oft um sömu erfiðleika að etja varðandi sönnun um rangar sakargiftir,“ segir Kolbrún. Hún áréttar að þegar mál eru felld niður hjá ríkissaksóknara sé embættið ekki að slá neinu föstu um hvort kærandi sé að ljúga, eða segja satt.