Brynjar Karl hefur undanfarin misseri verið með skip sitt til sýningar í Smáralindinni.Vísir/VALLI
Hinn tólf ára gamli Brynjar Karl Birgisson mun taka þátt í einni stærstu Legósýningu Norðurlanda. Sex og hálfs metra löng eftirgerð Brynjars af skipinu Titanic sem hann smíðaði úr 50 þúsund legókubbum hefur nú verið pakkað saman fyrir siglinguna til Svíþjóðar.
Það var fyrir um ári síðan sem Brynjar Karl, sem er einhverfur, ákvað að ráðast í byggingu eftirmyndarinn af uppáhaldsskipinu sínu. Í gær birti Brynjar mynd af smiðum sem voru að vinna að því að smíða grind undir skipið.
„Ævintýrið heldur áfram hjá Brynjari,“ segir Bjarney Lúðvíksdóttir, móðir Brynjars. „Hann verður viðstaddur þegar skipið verður sett saman og sett upp fyrir sýninguna. Þá mun hann kynna sögu þess og verkefnið sitt sem hann er nú mikið að vinna í.“