Innlent

Segir félagið ekki hafa tekið afstöðu gegn gjöf Sádi Arabíu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ibrahim Sverrir Agnarsson tók við formennsku í Félagi múslima á Íslandi af Salman Tamimi.
Ibrahim Sverrir Agnarsson tók við formennsku í Félagi múslima á Íslandi af Salman Tamimi.
Ibrahim Sverrir Agnarsson, formaður og forstöðumaður í Félagi múslima á Íslandi segist gera ráð fyrir því að styrkurinn sem sendiherra Sádi Arabíu greindi forsetanum frá sé ætlaður Félagi múslima á Íslandi til byggingar mosku í Sogamýrinni. Um 135 milljónir króna er að ræða eða 1 milljón Bandaríkjadala. 

„Ég kannast ekki við að félagið hafi tekið þá afstöðu að þiggja ekki gjöf frá Sádi Arabíu ef henni fylgja ekki takmarkandi skilyrði,“ segir Sverrir. Honum skilst að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hafi sýnt honum lóðina þar sem fyrirhugað er að moskan rísi.  

Sendiherra Sádi Arabíu sem heimsótti Ísland á dögunum hefur þó ekki sett sig í samband við Sverri en formaðurinn gerir ráð fyrir að heyra frá honum fyrr en síðar. 

Fyrr í kvöld sagði Salman Tamimi, sem gegnir stöðu ímams eða trúarleiðtoga í félaginu, að félagið myndi aldrei taka við gjöfum frá ríkisstjórn Sádi Arabíu þar sem hún bryti á mannréttindum þegna sinna og styddi hryðjuverk í Mið-Austurlöndum. Hann sagðist ekkert kannast við að félaginu hafi verið boðinn slíkur stuðningur. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.