Innlent

Sviflug, þrumuveður og þjófóttir smalar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
„Þetta er frekar ótrúlegt allt saman. Ég er alveg heil heilsu og ekki ein einasta skráma,“ segir Ágústa Ýr Sveinsdóttir eftir svaðilfarir síðustu viku.

Ágústa hefur síðasta hálfa mánuðinn flogið svifvæng sínum yfir fjallendi Makedóníu – „í eiginlegum flugæfingabúðum,“ eins og hún kemst að orði í samtali við Vísi – og nú á föstudag var hún stödd á víðfrægum flugstað við vatnið Ohrid á landamærum Albaníu.

„Þetta er ótrúlega fallegur staður og mjög gaman að fljúga þar, “ segir Ágústa og bætir við að framanaf hafi þetta verið eitt skemmtilegasta flug sem hún hafi átt á þeim tveimur árum sem Ágústa hefur lagt stund á íþróttina.

En skjótt skipast veður í lofti.

Ágústa á flugi við Lake Ohrid.MYND/Ágústa
Á um það bil fimm mínútum tóku dökku skýin umhverfis hana að breytast í beljandi þrumuský og aðstæður til svifflugs snarversnuðu.  

„Þrumuský toga mjög hratt í svifvængi og maður er fljótur að tapa hraða. Áður en ég vissi hafði ég ekki lengur hraða til að kljúfa vindinn og tók ég því að fjúka aftur á bak og upp,“ segir Ágústa og bætir við að „maður vill svo sannarlega ekki lenda í þrumuskýjum, eins og gefur kannski að skilja.“

Hún segist að hafa gripið til allra „trixana í bókinni“ til að losa sig úr sogi skýjanna og lækka flugið en allt hafi komið fyrir ekki. Þegar hún var komin í um 1200 metra hæð kallað leiðbeinandinn á hana og sagði henni að „spírala“ niður.

Það hafi þó verið þrautin þyngri og Ágústu rak óðfluga í átt að lágu fjalli á landamærum Albanínu og Makedóníu. „Ég viðurkenni að ég panikkaði á þessum tímapunkti.“

Óveðrið skellur á.Mynd/Ágústa
Svifvængurinn hékk efst í trénu.Mynd/Ágústa
Tvennt í stöðunni

Þegar Ágústa áttaði sig á því að hún gæti ekki komist til hliðar við fjallið sá hún að í raun væru valmöguleikarnir bara tveir. Annað hvort þyrfti hún að nauðlenda svifvængnum í hlíðum fjallsins eða hætta á það að fara með vindi yfir fjallstoppinn og lenda þar fyrir aftan.

„En ég var svo svakalega lágt,“ útskýrir Ágústa og því hafi síðari valkosturinn ekki komið til greina.„Ég rak upp þetta svakalega hræðsluöskur sem allir í fimm kílómetra radíus heyrðu og héldu að ég væri að deyja.“

Áður en hún vissi af hafði svifvængur hennar skollið á um fimm metra háu tré og festst í krúnu þess.

Ágústa hafi þó fallið áfram til jarðar og lá þar hreyfingarlaus í um tíu mínútur – „skjálfandi að ná áttum og fegin að vera komin niður.“

Eftir að hafa staulast á fætur labbaði hún niður fjallið í átt að veginum þar sem leiðbeinandi hennar og samferðamenn biðu hennar. Óveðrið gekk hratt yfir og um tveimur tímum síðar hélt Ágústa aftur á slysstað til að sækja vænginn ásamt öðrum í flughópnum hennar.

En vængurinn var á bak og burt.

Vængsins vitjað

Búið hafið verið að höggva í tréð þar sem vængurinn hékk og af honum sást hvorki tangur né tetur. Skammt frá trénu lá slóði inn í Albaníu sem Ágústa og samferðamaður hennar fylgdu um nokkra stund áður en þau þurftu að halda heim aftur vegna aftakaveðurs sem brostið hafði á að nýju.

Eftir að hafa hvílst á hóteli hópsins yfir nóttina fékk Ágústa símtal frá þeim sem hafði fylgt henni inn í skóginn daginn áður. Hann hafði keyrt slóðann um morguninn og komið á bóndabæ þar sem húsráðandi gat frætt hann um framvindu mála.

„Það voru tveir smalar sem sáu mig falla til jarðar og höfðu beðið eftir því að ég yfirgæfi slysstað svo að þeir gætu nappað svifvængnum mínum,“ segir Ágústa. „Þetta er gífurlega vinsælt flugsvæði og þeir vita að það eru töluverð verðmæti í svifvængjum.“

Smalarnir höfðu því næst komið svifvængnum í hendur bóndans á bænum sem var ekki lengi að áframselja vænginn á rúmar 400 evrur. „Sem er frekar há upphæð fyrir notaðan væng eins og þennan sem ég var á,“ segir Ágústa létt í bragði.

Viðgerð á vængnum í fullum gangi.MYND/Ágústa
Bóndinn benti þeim á kaupandann sem var ekki alls kostar sáttur við vitjunina. Eftir töluverðan atgang og handalögmál gaf kaupandinn eftir og Ágústa fékk svifvænginn sinn aftur í hendurnar.

Hann hafði þó ekki komist óskaddaður frá hrapinu; tveir skurðir höfðu komið á vænginn og línan hafði slitnað. „Sem er í raun mjög lítið miðað við allt sem að gekk á,“ segir Ágústa og var hún ekki lengi að tjasla honum aftur saman. „Hann hefur aldrei verið betri,“ bætir Ágústa við og hlær.

Hvergi af baki dottinn.

Þegar fréttamaður Vísis spurði Ágústu hvort hún væri ekki smeky við frekara flug eftir svaðilförina stóð ekki á svörum. „Nei, nei, nei, nei – ekkert svoleiðis. Ég er nánast búin að vera alfarið í loftinu frá hrapinu. Það besta sem maður gerir er að komast í loftið aftur. Ég var kannski aðeins óörugg í fyrsta fluginu eftir þetta en maður var ekki lengi að hrista það úr sér,“ segir Ágústa og bætir við að hún sé hvergi bangin.

Á dögunum hafi hún til að mynda flogið rúma 60 kílómetra leið í átt að höfuðborginni Skopje og er það lengsta flug sem útlendingur hefur ráðist í á þessum slóðum.

Ágústa segist vera á sífelldum flakki um heiminn með svifvænginn sinn og fær ekki nóg af fluginu að eigin sögn. „Ekki frekar en nokkur sem byrjar í þessu sporti,“ segir hún. „Þetta er allt að því heilandi, róin er algjör og maður er einn með hugsunum sínum í háloftunum. Það gerist ekki betra.“

Þrátt fyrir allt heimshornaflakkið leitar hugurinn Ágústu þó alltaf heim á ný. „Það er alltaf best að koma heim og fljúga yfir Ísland. Það slær því ekkert við“

Ágúsa Ýr Sveinsdóttir, flugáhugamaðurMynd/Ágústa



Fleiri fréttir

Sjá meira


×