Innlent

Fresta gjaldtöku við Dettifoss

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Fyrirhugaðri gjaldtöku við Dettifoss hefur verið frestað fram til 1. maí 2015.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vatnajökulsþjóðgarði og Landeigendum Reykjahlíðar ehf. sem send er út í kjölfar samkomulags aðilanna um uppbyggingu við Dettifoss að vestan í landi ReykjahlíðarLandeigendur í Reykjahlíð ætluðu að innheimta gjald af ferðamönnum sem myndu skoða fossinn í sumar um 800 krónur en af því verður ekki á þessu ári.

Samkomulagið fellst í því að Vatnajökulsþjóðgarður mun byggja, eiga og annast rekstur á salernisaðstöðu sem sett verður niður við nýlegt bílastæði Vegagerðarinnar við aðkomuna að Dettifossi. Landeigendur Reykjahlíðar ehf. veita samþykki sitt og leggja land undir hluta fyrirhugaðra framkvæmda en Vatnajökulsþjóðgarður mun standa straum af öllum kostnaði við framkvæmdirnar.

Hafist verður handa við verkefnið á þessu ári og áætlað að ný salernisaðstaða verði tekin í notkun fyrir mitt ár 2015. Þá verður einnig á þessu ári ráðist í hönnun og uppbyggingu á svæðinu. „Með framangreindri uppbyggingu er verið að bæta aðgengi að svæðinu til muna, einnig fyrir hreyfihamlaða og  öryggi ferðamanna aukið,  jafnframt því að vernda svæði  gegn átroðningi,” eins og fram kemur í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Ferðamenn rukkaðir um 800 krónur fyrir að skoða Dettifoss

Ferðamenn sem vilja að skoða Dettifoss, Námaskarð og Leirhnjúka í sumar munu þurfa að borga fyrir. Landeigendur Í Reykjahlíð ætla að byggja upp þjónustumiðstöðvar á öllum þremur ferðamannastöðunum. Hafa enga trú á náttúrupassanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×