Innlent

Jónas Kristjánsson látinn

Jónas Kristjánsson.
Jónas Kristjánsson. Mynd/Aðsend
Dr. Jónas Kristjánsson, fyrrverandi forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, er látinn, 90 ára að aldri.

Hann fæddist að Fremstafelli í Kinn 10. apríl árið 1924. Hann andaðist á Landspítalanum að morgni 7. júní. Jónas var sonur hjónanna Rósu Guðlaugsdóttur og Kristjáns Jónssonar. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1943 og cand. mag. prófi í íslenskum fræðum 1948. Doktorsritgerð sína, Um Fóstbræðrasögu, varði Jónas árið 1972.

Jónas kenndi við Samvinnuskólann, stundaði útgáfustörf hjá Hinu íslenska fornritafélagi og Háskólanum, var skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands, handritafræðingur á Handritastofnun Íslands frá 1963 og var síðan skipaður forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar árið 1971 og gegndi hann því embætti til sjötugsaldurs.

Jónas var fulltrúi Íslands í skilanefnd íslensku handritanna frá Danmörku og stóð sú vinna yfir samfellt frá 1972 til 1986. Hann var forseti Vísindafélags Íslendinga, formaður orðunefndar, og sat í ýmsum stjórnum meðal annars Hins íslenska þjóðvinafélags, Hins íslenska fornritafélags og Sjóði Ásu Wright.

Eftirlifandi eiginkona Jónasar er Sigríður Kristjánsdóttir húsmæðrakennari. Þau eignuðust fjögur börn; Kristján, Aðalbjörgu, Gunnlaug og Áslaugu. Stjúpsonur Jónasar er Egill B. Hreinsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×