Það var á öðrum tímanum í nótt sem hún kom svífandi inn til lendingar en hingað var þotan að koma frá Leipzig í Þýskalandi. Takið eftir að hreyflarnir á vængjunum eru sex talsins en þetta er bæði lengsta og þyngsta flugvél sem smíðuð hefur verið í heiminum með allt að 640 tonna flugtaksþyngd.
Segja má að þetta sé einskonar fljúgandi risaeðla, sem dagaði uppi þegar Sovétríkin liðuðust í sundur. Henni var á sínum tíma ætlað að ferja geimskutlur á bakinu en þegar hætt var við geimferjuáætlun Sovétmanna stóð vélin óhreyfð í áratug eða þar til Úkraínumenn gerðu hana flughæfa á ný árið 2001. Síðan hefur hún verið notuð til að flytja stóra og þunga farma en um borð að þessu sinni er varmaskiptir fyrir gasvinnslu, sem er á leið til Edmonton í Kanada.
Í Keflavík voru það starfsmenn Airport Associates sem önnuðust afgreiðslu þotunnar og það þurfti að bæta miklu eldneyti á geymana því hún eyðir um 16 tonnum á klukkustund á flugi. Til að bera allan þunga hennar í lendingu eru 14 hjól á hvoru lendingarstelli, samtals 28 hjól, auk fjögurra hjóla að framan. Hjólin eru því alls 32 talsins.

Sovétmenn voru reyndar langt komnir með að smíða annað eintak á sínum tíma en áform um að gera þá vél einnig flughæfa hafa ekki gengið eftir og á meðan er þessi vél einstök í heiminum.
Þeir sem vilja sjá flugtakið frá Keflavík þurfa að vaka fram yfir miðnætti því það er áætlað klukkan hálftvö í nótt.