Innlent

Töldu Sævar hafa framið sjálfsvíg

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi.
Frá vettvangi. Vísir/Vilhelm
Lögreglumenn töldu líkur á því að Sævar Rafn hefði tekið eigið líf áður en þeir réðust inn í íbúð hans í Hraunbæ þann 2. desember síðastliðinn. Þetta er meðal þess sem fram kemur í greinargerð ríkissaksóknara um aðgerðir lögreglu sem birt var í dag.

Lögreglan fékk tilkynningu klukkan 2:12 um nóttina þess efnis að mikill tónlistarhávaði kæmi frá íbúð Sævars. Tilkynnandi sagði íbúann hins vegar heita öðru nafni. Lögregla fletti nafni mannsins upp og hafði hann, ólíkt Sævari, aldrei komið við sögu lögreglu. Tveir lögreglumenn fóru á vettvang, ræddu við tilkynnanda sem taldi að um skothvell hefði verið að ræða. Í kjölfarið var sérsveit lögreglu ræst út.

Ítrekað var knúið á dyr íbúðar Sævars þar sem mikil tónlist heyrðist. Þó voru engin merki um umgang í íbúðinni. Fram kom við skýrslutöku yfir sex lögreglumönnum sem voru á vettvangi að líkur hefðu verið taldar á að Sævar hefði tekið eigið líf.

Vísir/Vilhelm
Lásasmiður í engum hlífðarfatnaði

Tilkynnandinn, sem hefur sinnt herþjónustu, fullyrti að um skothvell hefði verið að ræða og strax í kjölfarið hefði hann heyrt hnjask frá gólfi íbúðarinnar. Síðan hefði hann ekki heyrt annað en tónlist. Taldi hann Sævar hafa skotið sjálfan sig.

Lásasmiður var fenginn á vettvang en sá var ekki klæddur í neinn hlífðarfatnað, s.s.skothelt vesti. Í greinargerðinni segir að hafa verði í huga að lögreglumenn gerðu ráð fyrir að Sævar hefði fyrirfarið sér. Reynt hafði verið að ná sambandi við hann í fimmtán mínútur áður en lásasmiðurinn kom á staðinn.

Vinna lásasmiðsins tók nokkurn tíma og hafði í för með sér nokkurn hávaða. Sérsveitarmaður hélt skotskýlingarskildi upp við dyrnar á meðan á því stóð. Þó var ekki hægt að halda honum beint fyrir framan lásasmiðinn.

Lét lífið af tveimur skotsárum

Um leið og opnað hafi verið inn í íbúðina hafi einn lögreglumannanna kallað „byssa, byssa“ og í sömu andrá reið af skot sem lenti í skotskýlingarskyldi lögreglumanns. Taldar eru líkur á að umræddur lögreglumaður hefði slasast mjög alvarlega eða jafnvel látið lífið hefði skotið, sem var í augnhæð, hæft hann. Hann hafði ekki skothjálm á höfði.

Lögreglumennirnir tveir, sérsveitarmennirnir tveir auk lásasmiðsins höfuðu niður á næsta stigapall í kjölfar skotsins. Er fullyrt í skýrslunni að Sævar hafi verið á stigapallinum fyrir ofan þá í um tíu mínútur og beint haglabyssu sinni niður stigann. Ekkert hafi hins vegar heyrst frá honum.

Í kjölfarið fór í hönd umsátursástand sem lauk ekki fyrr en á sjöunda tímanum með innrás sérsveitarmanna. Lét Sævar lífið af tveimur skotskárum, öðru í brjóst og hinu í nára.


Tengdar fréttir

Skotárásin í Hraunbæ: „Kerfið gafst upp á honum“

„Það er ekkert að gerast sem bendir til þess að lærdómur sé dreginn af þessum hrikalega atburði,“ segir Gunnar Kr. Jónasson, bróðir Sævars Rafns Jónassonar sem féll fyrir hendi lögreglu í skotárás í Hraunbæ þann 2. desember í fyrra.

Lögregla braut ekki lög í Hraunbæjarmálinu

Ríkissaksóknari úrskurðari í dag að lögreglan hefði farið að lögum þegar hún skaut Sævar Rafn Jónasson til bana í Hraunbæ í desember síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×