Ísland mátti sætta sig við 2-0 tap fyrir Svíum í æfingaleik sem fór fram í Abú Dabí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í dag.
Robin Quaison og varamaðurinn Guilllermo Molins skoruðu mörk Svía í dag en sigurinn verður að teljast sanngjarn. Strákarnir fengu þó ágæt færi og byrjuðu vel í seinni hálfleik en það reyndist of lítið.
Bæði lið fengu sín færi á meðan staðan var enn markalaus. Besta færi Íslands í fyrri hálfleik fékk Arnór Smárason sem skallaði sendingu Matthíasar Vilhjálmssonar framhjá á 28. mínútu.
Hannes Þór Halldórsson varði tvívegis vel frá Svíum snemma leiks og í seinna skiptið frá Nabil Bahoui sem átti skalla að marki úr góðu færi.
Svíar komust svo yfir á 33. mínútu eftir snarpa sókn. Þeir unnu boltann á miðjunni og strákarnir voru of seinir að bregðast við. Bahoui átti góða stungusendingu inn á Quaison sem afgreiddi knöttinn með fyrstu snertingu neðst í nærhornið.
Síðari hálfleikur byrjaði svo vel hjá okkar mönnum og komst Matthías nálægt því að jafna metin er hann reyndi að stýra sendingu Björns Daníels Sverrissonar í markið. Varamarkvörður Svía, David Nilsson, bjargaði hins vegar í horn.
Svíar sóttu í sig veðrið eftir þetta og uppskáru annað mark á 63. mínútu. Molins skoraði með föstu skoti í teignum eftir sendingu Christoffer Nyman yfir þveran teiginn.
Leikurinn fjaraði út hægt og rólega eftir þetta enda margar breytingar gerðar á liðunum í síðari hálfleiknum. Guðmundur Þórarinsson, einn varamanna Íslands, fékk besta færi Íslands til að minnka muninn er hann skaut í stöng af löngu færi.
Umfjöllun: Ísland - Svíþjóð 0-2 | Tveggja marka tap í Abú Dabí
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mest lesið









Uppgjörið: Vestri í úrslit í fyrsta skipti
Íslenski boltinn

Ekki pláss fyrir Rúnar í flugvélinni: „Ég fórnaði mér í þetta“
Íslenski boltinn