Erlent

Námuslysið það versta í sögu Tyrklands

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
vísir/ap
Námu­slysið sem varð í Tyrklandi í fyrradag er það versta í sögu lands­ins. Að minnsta kosti 274 eru látn­ir og er talið að sú tala kunni að hækka enn frekar.

Slysið varð í bænum Soma í héraðinu Manisa en bærinn er um 250 kílómetra sunnan við Istanbul. Sprenging varð í kolanámu og festust hundruð manna í námugöngum allt að fjórum kílómetrum frá næsta útgangi.

Að minnsta kosti 450 verkamönnum hefur verið bjargað en enginn hefur fundist á lífi síðan síðdegis í gær. Þá eru áttatíu slasaðir en meiðsli þeirra eru þó ekki talin alvarleg.

For­sæt­is­ráðherra landsins heim­sótti Soma-hérað í gær og umkringdu reiðir mót­mæl­end­ur bíl hans og bauluðu. Hann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ónærgætin viðbrögð sín við slysinu, en hann hefur reynt að gera lítið úr ábyrgð yfirvalda.

Þá kom til átaka á milli mót­mæl­enda og óeirðalög­reglu í Istanbul og einnig í An­kara, en þar sprautaði lögregla vatni á um átta hundruð mótmælendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×