Toni Kroos er genginn til liðs við Real Madrid frá Bayern München. Þýska félagið staðfesti það á heimasíðu sinni í dag.
Kroos, sem varð heimsmeistari með þýska landsliðinu á HM í Brasilíu um helgina, átti eitt ár efitr af núverandi samningi sínum við Bayern sem ákvað því að selja hann nú, fremur en að missa hann frítt í lok samningstímans.
Hann skrifaði undir sex ára samning við Madrídarliðið en kaupverðið er óuppgefið. Talið er að það sé um 25 milljónir evra eða um 3,9 milljarðar króna.
„Við þökkum Toni Kroos fyrir tíma hans hjá Bayern München,“ sagði Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarformaður Bayern, og óskaði honum og fjölskyldu hans alls hins besta.
Kroos er 24 ára gamall en hann kom til Bayern þegar hann var sextán ára gamall. Hann lék sem lánsmaður hjá Leverkusen tímabilið 2009-2010 en á alls að baki 176 leiki með Bayern og skoraði í þeim 23 mörk.

