Fótbolti

Kristinn: Held að þetta sé ekki of stórt skref

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristinn gerði fjögurra ára samning við bandaríska MLS-liðið Columbus Crew í gær.
Kristinn gerði fjögurra ára samning við bandaríska MLS-liðið Columbus Crew í gær. vísir/pjetur
Blikinn Kristinn Steindórsson varð í gær annar íslenski leikmaðurinn sem semur við lið í bandarísku MLS-deildinni í knattspyrnu frá endurstofnun hennar árið 1996.

Kristinn gerði fjögurra ára samning við Columbus Crew sem er frá samnefndri borg í Ohio-ríki, en Kristinn hefur spilað síðustu þrjú ár með Halmstad í Svíþjóð. Þjálfari liðsins er Bandaríkjamaðurinn Gregg Berhalter sem þjálfaði Hammarby í Svíþjóð frá 2012-2013.

„Ég spilaði á móti Hammarby með Halmstad þegar við vorum í 1. deildinni í Svíþjóð. Hann þekkir mig síðan þá og hefur verið að fylgjast með mér,“ segir Kristinn í viðtali við Fréttablaðið. „Nú þegar ég var orðinn samningslaus hafði hann samband við mína umboðsmenn og þannig fór boltinn að rúlla,“ segir hann.

Kristinn er spenntur fyrir Bandaríkjunum.vísir/pjetur
Lítur vel út

Aðeins Guðlaugur Victor Pálsson hefur verið á mála hjá MLS-liði, en hann spilaði með New York Red Bulls. Þekkingin á deildinni er því eðlilega ekki mikil á meðal Íslendinga.

„Mér fannst þetta spennandi þegar þetta kom upp þó ég vissi ekki mikið um deildina. Ég var aðeins efins fyrst. En um leið og ég var búinn að tala við þjálfarann og kynna mér félagið þá var þetta aldrei spurning í mínum huga,“ segir Kristinn, sem á þó eftir að heimsækja borgina.

„Þeir voru bara að klára tímabilið núna og fóru svo í frí. Ég hef rætt við þjálfarann og fengið upplýsingar um félagið. Svo hef ég horft á nokkra leiki og séð tilþrif á YouTube. Þetta lítur mjög vel út.“

Á eftir að líða vel

Columbus er ríflega 800 þúsund manna borg og deila tvö atvinnumannalið áhuga íþróttaunnenda. Það er NHL-liðið Columbus Blue Jackets og The Crew eins og fótboltaliðið er kallað.

Fótboltaáhugi er gríðarlega mikill í borginni og leikir Crew vel sóttir. Liðið var það fyrsta sem fékk völl sérhannaðan fyrir knattspyrnuleiki og þar spilar bandaríska liðið oft.

„Það náttúrlega hjálpar að þarna er ekki NFL-lið sem tekur áhuga frá fótboltaliðinu sem gerir þetta mjög spennandi. Það er allt á réttri leið þarna. Ég hef verið að kynna mér hugmyndafræði liðsins og hvernig það vill gera hlutina. Það sem ég hef séð og heyrt líkar mér. Ég held mér eigi eftir að líða vel þarna,“ segir Kristinn, en hvað varðar fótboltann þá hentar hann þessum skjóta og marksækna kantmanni mjög vel.

„Ég veit að liðið vill vera mikið með boltann sem hentar mér mjög vel. Það var með næstflestar sendingar í deildinni á síðustu leiktíð. Liðið spilar leikkerfið 4-2-3-1 og þessir þrír fyrir aftan framherjann eiga að koma „inn á völlinn“ og skapa hluti þaðan. Það er gott fyrir mig, en í Svíþjóð var ég meira hefðbundinn kantmaður.“

Kristinn fagnar marki með Halmstad í Svíþjóð.mynd/hbk.se
Dreymir um landsliðið

Kristinn hefur verið í lykilhlutverki hjá Halmstad í sænsku úrvalsdeildinni undanfarin tvö ár og skoraði átta mörk á síðustu leiktíð. Hann hefur ekki enn fengið tækifæri í landsliðshópi Lars og Heimis, en vonast til að þessi félagaskipti hjálpi til við það.

„Ákvörðunin var ekki tekin með mið af landsliðinu, en ég held klárlega að þetta skref muni hjálpa mér. Ég verð í betra umhverfi og betri deild tel ég tvímælalaust. En svo er bara undir mér komið að standa mig. Þó ákvörðunin sé ekki tekin í von um að fá landsliðskall þá held ég að þetta eigi eftir að auka möguleikana á því. Það er náttúrlega það sem maður vonast eftir. Það hefur verið draumur lengi að fá fyrsta leikinn með landsliðinu,“ segir Kristinn, sem er ánægður með þau skref sem hann hefur tekið á ferlinum.

Hann fór úr Pepsi-deildinni í sænsku 1. deildina og upp með sínu liði í sænsku úrvalsdeildina. Og nú fær hann tækifæri í stórri deild. „Ég er mjög sáttur við þetta og held að þetta sé ekki of stórt skref. Ég hef fulla trú á því að ég geti haft áhrif þarna strax og hjálpað liðinu.“

Kristinn kveðjur nú Svíþjóð.mynd/hbk.se
Kall frá Beckham?

Í fyrradag fór fram hálfgert nýliðaval í MLS-deildinni þar sem nýju liðin tvö, New York City FC og Orlando City SC, fengu að velja sér tíu leikmenn hvort frá hinum liðunum til að stækka leikmannahópa sína. Eftir nokkur ár kemur nýtt lið í Miami inn í deildina og fær að gera það sama, en eigandi þess er David Beckham.

„Hver veit nema maður endi þar. Það væri ekki leiðinlegt að sitja inni í klefa og svo kæmi Beckham að segja manni að maður hefði staðið sig vel,“ segir Kristinn og hlær.

„En fyrsta skrefið er auðvitað bara að komast í liðið hjá Crew og standa mig þar. Þjálfarinn hefur sagst hafa fulla trú á mér. Ég ætla að reyna að gera mitt besta þarna og allt annað er aukatriði,“ segir Kristinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×