Innlent

Endanleg útfærsla á afnámi fjármagnshafta ekki ákveðin

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Lee Buchheit ráðgjafi stjórnvalda við afnám fjármagnshafta fundaði með slitastjórnum föllnu bankanna í gær.
Lee Buchheit ráðgjafi stjórnvalda við afnám fjármagnshafta fundaði með slitastjórnum föllnu bankanna í gær. Fréttablaðið/Stefán
Slitastjórnir föllnu bankanna funduðu í gær með framkvæmdahópi stjórnvalda um afnám fjármagnshafta. Tilgangur fundarins var að leita eftir sjónarmiðum slitastjórnanna á tillögum hópsins um afnám gjaldeyrishafta.

Lee Buchheit, lögfræðilegur ráðgjafi stjórnvalda við afnám fjármagnshafta, vildi ekki tjá sig um útfærslu tillaganna þar sem þær væru nú í umsagnarferli meðal þeirra sem ættu hagsmuna að gæta, líkt og slitastjórna, lífeyrissjóða og fleiri. Tillögurnar hafi þar að auki ekki verið útfærðar endanlega.

„Tilgangur þessa fundar er að heyra sjónarmið slitastjórnanna og fá að vita hvað þau myndu gera sætu þau í okkar sæti,“ sagði Buchheit í gær.

Fréttablaðið sagði frá því í gær að hugmyndir framkvæmdahópsins fælu það í sér að eigendur aflandskróna verði hvattir eða jafnvel knúnir til að skipta eignum sínum yfir í skuldabréf til 30 ára eða lengur. Önnur hugmynd snýst um að leggja flatan útgönguskatt á erlendar sem og innlendar eignir. Það myndi þýða að lífeyrissjóðir sem myndu vilja flytja fjármagn á milli landa þyrftu að greiða skatta af þeim fjármagnsflutningum.

Buchheit sagði mjög mikilvægt að fara varlega við afnám haftanna, sérstaklega í hagkerfi eins smáu og hinu íslenska, þar sem afleiðingarnar gætu orðið verri en annars staðar séu mistök gerð.

Buchheit vildi ekki staðfesta hugmyndina um útgönguskatt, en sagði verið að leita leiða til að koma í veg fyrir að allir kröfuhafar færu með fjármagn sitt úr landi um leið og höftunum væri aflétt. Hann sagðist hafa það á tilfinningunni að stjórnvöld vildu afgreiða málið eins fljótt og hægt væri. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins má eiga von á næstu skrefum framkvæmdahópsins í byrjun næsta árs.

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, sagði fundinn hafa verið góðan.

„Ég vona að þetta sé upphafið að frekari samskiptum. Það er mikilvægt að halda áfram viðræðum um hvernig eigi að ljúka skiptum á þessum búum með því að ná nauðasamningum og í framhaldinu verði stjórnvöldum þá kleift að aflétta gjaldeyrishöftunum,“ sagði Steinunn í samtali við Fréttablaðið eftir fundinn.

Nákvæmar útfærslur tillaganna voru ekki ræddar við slitastjórnirnar, en þær lýstu þar meðal annars hvernig hægt væri að ljúka skiptum á hverju þrotabúi fyrir sig og greiða út til kröfuhafa án þess að það hefði áhrif á greiðslujöfnuð eða skapaði þrýsting á krónuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×