Innlent

Konur og borgarbúar með meiri menntun

Sveinn Arnarsson skrifar
Rektor Háskólans á Akureyri segir mun á háskólamenntun íbúa eftir búsetu óafsakanlegan.
Rektor Háskólans á Akureyri segir mun á háskólamenntun íbúa eftir búsetu óafsakanlegan. Vísir/Valli
Mun fleiri íslenskar konur hafa lokið háskólanámi en karlar. Munurinn á körlum og konum hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár. Að mati Ástu Urbancic, fagstjóra hjá Hagstofunni, mun þetta bil milli kvenna og karla halda áfram að aukast næstu ár ef kynjahlutföllin í háskólum landsins breytast ekki.

„Við sjáum það í yngri aldurshópunum að fleiri menntaðar konur eru að koma inn í greiningar okkar. Elstu aldurshóparnir eru öðruvísi samansettir, þar eru menntaðir karlmenn fleiri en konur. Því má leiða að því líkur að ef þróunin heldur áfram á þessa leið muni konum með háskólapróf halda áfram að fjölga,“ segir Ásta.

Einnig kemur fram mikill munur á menntun íbúa höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðanna árið 2013. Á höfuðborgarsvæðinu höfðu 22,7 prósent íbúa á aldrinum 25-64 ára eingöngu lokið grunnmenntun en 42,3 prósent höfðu lokið háskólamenntun. Utan höfuðborgarsvæðisins höfðu 37 prósent íbúa eingöngu lokið grunnmenntun og 24,7 prósent lokið háskólamenntun.

Eyjólfur Guðmundsson
Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, telur að þessa þróun þurfi að stöðva og markmiðið sé að fá fleiri karlmenn inn í háskólana.

„80 prósent nemenda Háskólans á Akureyri eru konur. Hlutfallið er um 70 prósent í Háskóla Íslands. Ef þessi staða verður óbreytt lengi gætum við horft upp á þjóðfélag þar sem einstaklingar ná ekki að blómstra. Auðvitað er mikilvægt að menntun kynjanna sé sem jöfnust þannig að við getum byggt upp samfélag jafnréttis,“ segir Eyjólfur. 

Munur á menntunarstigi þjóðarinnar, eftir því hvort einstaklingar býr á höfuðborgarsvæðinu eða í landsbyggðunum, er að mati Eyjólfs óafsakanlegur og telur hann Háskólann á Akureyri mikilvægan hlekk í því að snúa þessari óheillaþróun við.

„70 prósent brautskráðra kandídata við Háskólann á Akureyri eru staðsettir utan höfuðborgarsvæðisins eftir að námi lýkur við skólann. Sú staðreynd að Háskólinn á Akureyri sinnir að miklu leyti því að hækka menntunarstig utan höfuðborgarsvæðisins sýnir hversu mikilvægur skólinn er fyrir þjóðfélagið. Það væri áhugavert að sjá hvernig staðan væri ef ekki væri fyrir Háskólann á Akureyri,“ segir Eyjólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×