Erlent

Hiti mældur á landamærastöð

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Heilbrigðisstarfsfólk tekur á móti sjúklingum við landamæri Malí og Gíneu.
Heilbrigðisstarfsfólk tekur á móti sjúklingum við landamæri Malí og Gíneu. fréttablaðið/AP
Í landamærabænum Kouremale í Malí, rétt við landamæri Nígeríu, er nú grannt fylgst með öllum ferðum fólks milli landanna.

Allir ferðalangar þurfa að koma við í hvítu tjaldi, þar sem hiti þeirra er mældur og þeim sagt að þvo sér um hendurnar með klórvatni.

Fimm manns hafa nýlega látið lífið úr ebólu í Malí. Tveir þeirra höfðu farið yfir landamærin og komið við í Kouremale.

Þau fyrstu sem létust voru tveggja ára stúlka og sjötugur maður, en hann hafði komið frá Gíneu í síðasta mánuði og farið um Kouremale. Ekki er talið að stúlkan hafi smitað neina aðra, en gamli maðurinn virðist hafa smitað þrjá aðra sem síðan létust.

Grannt er fylgst með rúmlega 400 manns í viðbót.

„Í fyrstu trúðum við ekki á ebóluveikina,“ segir Falaye Keita, sem býr í Kouremale. „Allt frá því gamli maðurinn dó vitum við að ebólan er raunveruleg, og við erum virkilega hrædd um að þessi sjúkdómur muni koma til þorpsins okkar.“

Jean-Francois Delfraissy, yfirmaður ebóluteymis á vegum Frakklandsforseta, hefur varað við því að næsti ebólufaraldur geti sprottið upp í Malí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×