Innlent

Tveir stólpar undir verðbólgunni

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Kostnaður vegna læknisþjónustu hefur aukist um 20 prósent milli októbermánaða 2013 og 2014.
Kostnaður vegna læknisþjónustu hefur aukist um 20 prósent milli októbermánaða 2013 og 2014. Nordicphotos/Getty
Ef ekki hefði komið til verðhækkana í heilsugæslu og menntun og fasteignaverð haldist óbreytt síðustu misseri væri hér líklegast lítils háttar verðhjöðnun.

Þetta kemur fram í verðbólguspá Capacent.

„Verðbólga síðustu mánaða stendur því á tveimur stólpum; Hækkun fasteignaverðs og verðhækkun þjónustu sem nýtur opinbers stuðnings eða heyrir beint undir hið opinbera,“ segir þar.

Bent er á að fasteignaliðurinn hafi, milli október í fyrra og í ár, hækkað um 8,8 prósent, menntun um 8,7 prósent og heilsugæsla um 6,6 prósent, en þar að baki sé 14 prósenta hækkun skráningargjalda í háskóla og fimmtungshækkun kostnaðar við þjónustu heimilis- og sérfræðilækna. Þá hafi tannlæknisþjónusta hækkað nokkuð.

Capacent spáir 0,1 til 0,2 prósenta hækkun verðbólguvísitölunnar í þessum mánuði. Gangi spáin eftir lækkar tólf mánaða verðbólga úr 1,9 prósenti í október í 1,7 til 1,8 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×