Innlent

Ekki gert ráð fyrir að framkvæmdir við risagróðurhús hefjist á næsta ári

Haraldur Guðmundsson skrifar
Bæjaryfirvöld gengu frá öllum skipulagsmálum vegna gróðurhússins í mars síðastliðnum.
Bæjaryfirvöld gengu frá öllum skipulagsmálum vegna gróðurhússins í mars síðastliðnum.
Bæjaryfirvöld í Grindavík gera ekki ráð fyrir að framkvæmdir við tómatagróðurhús hollenska fyrirtækisins EsBro hefjist á næsta ári. Fyrirtækið hefur viljað hefja framkvæmdir á þessu ári en enn er unnið að fjármögnun verkefnisins.

„Við gerum ekki ráð fyrir að sveitarfélagið fái tekjur eða leggi út gjöld vegna þessa verkefnis í fjárhagsáætlun ársins 2015 sem verður kynnt í byrjun nóvember,“ segir Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkur.

Hollenska fyrirtækið áformar að reisa 150 þúsund fermetra gróðurhús undir framleiðslu á tómötum til útflutnings. Það hefur fengið vilyrði fyrir lóð í Mölvík sem er um tíu kílómetra frá Grindavík.

Róbert segir forsvarsmenn fyrirtækisins nú stefna að því að gróðurhúsið verði reist í þremur fimm hektara áföngum. Fyrri áætlanir EsBro hafi gert ráð fyrir að húsið yrði byggt í einum 15 hektara áfanga.

Róbert Ragnarsson
„Okkur skilst að það sé enn unnið að fjármögnun verkefnisins og að þessar breytingar á framkvæmdinni tengist breyttum markaðsaðstæðum í Austur-Evrópu. Skipulag svæðisins heimilar hins vegar að verkefnið sé unnið í nokkrum áföngum og það ætti því ekki að vera neitt vandamál,“ segir Róbert. 

Verkefnið var fyrst kynnt á íbúafundi í Grindavík fyrir ári. EsBro hefur síðan þá gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á þessu ári en Róbert telur útilokað að það náist. 

„Þetta hefur tafist og það er meðal annars ástæðan fyrir því að við erum ekki að reikna með þessu á árinu 2015. Fyrirtækið hefur tvisvar sett upp tímaplan sem hefur ekki staðist og við erum því ekki að halda niðri í okkur andanum út af þessu,“ segir Róbert.

Heildarkostnaður verkefnisins er áætlaður um 35-40 milljónir evra, eða 5,4 til 6,2 milljarðar króna. Tekjur Grindavíkur vegna gróðurhússins gætu að sögn Róberts numið allt að 60 milljónum króna á ári. 

„Ef þetta kemur árið 2015 þá verður það frábært en annars erum við einungis að gera ráð fyrir þessum hefðbundna rekstri hjá okkur sem byggir á sjávarútvegi og ferðaþjónustu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×