Innlent

„Ekki verið að gæta hagsmuna Ölfuss“

Ármann Einarsson, oddviti D-lista
Ármann Einarsson, oddviti D-lista
Sveitarfélagið Ölfus neitar að afhenda útboðsgögn vegna útboðs sem fram fór nýlega, en þar samdi sveitarfélagið við Gámaþjónustuna. Íslenska gámafélagið vill fá að sjá hvaða forsendur lágu að baki útboði Gámaþjónustunnar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur undir með Íslenska gámafélaginu og úrskurðaði að sveitarfélaginu væri skylt að afhenda Íslenska gámafélaginu gögnin. Enn neitar sveitarfélagið að afhenda gögnin og ætlar sér að fara með málið til dómstóla.



Ármanni Einarssyni, fulltrúa D-listans í minnihluta, finnst afar skrítið hvernig meirihlutinn hefur haldið á þessu máli og vill fá formlegar umræður um málið í bæjarstjórn. „Þetta hefur ekki komið inn á okkar borð og mér þykir það mjög skrítin vinnubrögð. Þetta er eiginlega algjör della hvernig á málum er haldið,“ segir Ármann.

Hann spyr sig hvaða hagsmuna sé verið að gæta með þessum vinnubrögðum. „Ég vil fá öll gögn upp á borðið. Úrskurðarnefnd hefur sagt bænum að sýna gögnin og þá á hann að sjá sóma sinn í að gera það. Það er alveg ljóst að það er ekki verið að gæta hagsmuna bæjarbúa.“

Anna Björg Níelsdóttir, formaður bæjarráðs, segir þetta mál ekki hafa komið inn á borð bæjarráðs en bæjarstjórn hafi verið upplýst um stöðu mála. Hún segir að bæjarráð hafi skoðað það hvort Gunnsteinn Ómarsson bæjarstjóri hafi verið hæfur til að halda á málinu sökum þess að hann er tengdur starfsmönnum Gámaþjónustunnar fjölskylduböndum. Að öðru leyti vildi hún ekki tjá sig um málið að þessu sinni.


Tengdar fréttir

Sveitarfélagið Ölfus neitar að afhenda útboðsgögn

Ölfus neitar að gefa Íslenska gámafélaginu gögn um útboð á sorpmálum. Gámaþjónustan bauð lægst og fékk verkið. Úrskurðarnefnd tekur undir með Íslenska gámafélaginu en sveitarfélagið ætlar að kæra þann úrskurð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×