Innlent

Samþykkja sölu húsa að Laugavegi 4 og 6

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Húsin að Laugavegi 4 og 6 að frumkvæði Ólafs F. Magnússonar, þáverandi borgarstjóra.
Húsin að Laugavegi 4 og 6 að frumkvæði Ólafs F. Magnússonar, þáverandi borgarstjóra. fréttablaðið/Anton
Borgarráð hefur samþykkt að selja fasteignirnar við Laugaveg 4 og 6 og Skólavörðustíg 1 a. Ákvörðun um þetta var samþykkt í gær með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina greiddu atkvæði á móti.

Í bókun borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina segir að tap borgarsjóðs af þessum gerningi sé rúmar 338 milljónir króna og rúmar 409 milljónir króna ef ekki sé tekið tillit til afskrifta sem þegar hafi verið gerðar.

Þetta er hluti af lóðinni sem borgin keypti ásamt fasteignum fyrir 580 milljónir árið 2008. Kaupin voru gerð í tengslum við samstarfsyfirlýsingu Ólafs F. Magnússonar og sjálfstæðismanna í borgarstjórn þegar myndaður var nýr meirihluti í borgarstjórn og Ólafur F. varð borgarstjóri.

Borgarstjórn tekur endanlega ákvörðun um söluna, en Framsóknarmenn og flugvallarvinir bókuðu gegn henni í gær og sögðu tímasetningu sölunnar afleita sem og framkomið verð.

Í bókun sjálfstæðismanna segjast þeir einnig telja að söluverð sé of lágt. „Rétt er að bíða með sölu eignanna þar sem allt bendir til þess að söluverð eigna í hjarta borgarinnar muni hækka,“ segja sjálfstæðismenn í bókun sinni.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.