Lífið

„Við viljum bara skapa“

Baldvin Þormóðsson skrifar
Félagarnir í B2B vilja ekki kalla sig rappara
Félagarnir í B2B vilja ekki kalla sig rappara vísir/vilhelm
„Við myndum ekki kalla okkur rappara, við erum meira bara tónlistarmenn,“ segir Cody Shaw, einn meðlima rappsveitarinnar B2B, en hann og Alex Þór Jónsson stofnuðu sveitina í byrjun árs 2011 og stendur nafnið fyrir Broke 2 Billionaires.

Rappsveitin sendi frá sér sitt fyrsta myndband á dögunum við lagið No Love en í myndbandinu má sjá tvo rappara sveitarinnar í einkaþotu, þyrlu og í sérsmíðuðum bíl að kasta fimm þúsund króna seðlum upp í loftið.

„Við erum að vinna í kringum þessa R'n'B- og hiphop-stefnu,“ segir Cody. „Við viljum ekki vera með einhverja eina stefnu, við viljum bara skapa.“

Nýja myndband strákanna sló heldur betur í gegn og var það birt á heimasíðunni World Star Hip Hop. Vefsíðan sérhæfir sig í hiphop-tónlist og gefur ungum og upprennandi tónlistarmönnum byr undir báða vængi með því að birta tónlist þeirra.

„Þetta er algjör blessun að fá myndbandið okkar á síðuna þeirra,“ segir Cody en myndbandið vakti talsverða athygli og eru félagarnir í B2B nú með þó nokkur tilboð frá útgáfufélögum á borðinu

„Við erum að vinna í mixteipi sem kemur út á næstunni,“ segir Alex Þór. „Þessi tónlist á eftir að hafa áhrif á fólk.“


Tengdar fréttir

Íslenskir rapparar með einkaþotu, þyrlu og dýra bíla

Sveitin B2B var að senda frá sér nýtt myndband. Í því sjást þeir í einkaþotu, í þyrluflugi yfir Reykjavík, auk þess sem þeir sitja í dýrum bílum með fimm þúsund króna seðla í höndum sínum.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×