Innlent

SFO fékk gögn frá Sérstökum saksóknara

Sveinn Arnarsson skrifar
Sérstakur saksóknari Ólafur veitti gögn á grundvelli réttarbeiðni.
Sérstakur saksóknari Ólafur veitti gögn á grundvelli réttarbeiðni.
Embætti Sérstaks saksóknara lét bresku efnahagsbrotadeildinni, Serious Fraud Office (SFO), í té gögn um viðskipti kaupsýslumannsins Vincents Tchenguiz við Kaupþing, á grundvelli réttarheimildar sem lögð var fram að beiðni efnahagsbrotadeildarinnar bresku. Þau gögn urðu síðan hluti af málaferlum gagnvart Tchenguiz ytra.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær hefur lögfræðingateymi á vegum Tchenguiz hafið störf við að skoða grundvöll til málshöfðunar vegna misbrests á rannsókninni.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir gögn í máli Tchenguiz hafa verið veitt SFO á árunum 2010 og 2011 að framkominni réttarheimild þess efnis.

„Við höfum verið í samskiptum við SFO vegna þessa máls. Ég get ekki, málsins vegna, tjáð mig um rannsókn sem er á forræði SFO en ég get staðfest að þeir hafa fengið frá okkur gögn, samkvæmt beiðni, og við frá þeim. Þannig hefur okkar samskiptum og samvinnu verið háttað í þessum málum sem og öðrum,“ segir Ólafur Þór.

Mál bresku efnahagsbrotadeildarinnar gagnvart viðskiptum Tchenguiz var að lokum fellt niður vegna mistaka í rannsókn málsins. Náðist að lokum sátt milli aðila um að efnahagsbrotadeildin greiddi Tchenguiz þrjár milljónir sterlingspunda í skaðabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×