Innlent

Eftirlitsnefnd skellir skuldinni á óseldan golfvöll

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Aðeins þrjár holur voru tilbúnar þegar Grímsness- og Grafningshreppur keypti golfvöll við Minni-Borgmeð 56 hekturum lands á 55 milljónir króna. Um 40 milljónir hafa síðan verið settar í framkvæmdir á vellinum.
Aðeins þrjár holur voru tilbúnar þegar Grímsness- og Grafningshreppur keypti golfvöll við Minni-Borgmeð 56 hekturum lands á 55 milljónir króna. Um 40 milljónir hafa síðan verið settar í framkvæmdir á vellinum. Mynd/Golfborgir ehf.
Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga segir ástæðu þess að skuldastaða Grímsness- og Grafningshrepps sé yfir viðmiðunarreglu vera þá að áform um sölu golfvallar sem sveitarfélagið keypti fyrir nokkrum árum hafa ekki gengið eftir.

„Þau sem hafa verið í stjórninni telja þetta mjög lítilvægt og taka þessu mjög léttúðlega,“ segir Sigrún Jóna Jónsdóttir, annar tveggja fulltrúa minnihluta K-listans sem í bókun í sveitarstjórninni lögðu áherslu á að gerð yrði áætlun um það hvernig ná eigi skuldahlutfallinu niður. Það er 161 prósent af skatttekjum en má mest vera 150 prósent.

Gunnar Þorgeirsson, oddviti fyrir meirihluta C-lista, tekur ekki undir með eftirlitsnefndinni að golfvöllurinn sé ástæða þess að skuldahlutfallið sé yfir mörkum. Meginástæðan sé kaup sveitarfélagsins á skóla, sundlaug og stjórnsýsluhúsi af Fasteign og leigusamningur þar á undan sem að hálfu leyti hafi verið bundinn við evru. Þá bendir oddvitinn á að samkvæmt lögum hafi sveitarfélagið tíu ár frá árinu 2011 til að koma skuldunum undir mörkin.

Uppfært: Upphaflega stóð í fréttinni að Gunnar Þorgeirsson oddviti væri í J-lista. Rétt er hins vegar að Gunnar tilheyrir C-lista. Enginn J-listi er í Grímsness- og Grafningshreppi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×