Innlent

Danskur sendiherra mótmælir og vill halda bílastæðum við innganginn

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Danir vilja bílastæði beint framan við aðalinngang sendiráðs síns en ekki þessi tvö stæði sem borgin býður handan við hornið.
Danir vilja bílastæði beint framan við aðalinngang sendiráðs síns en ekki þessi tvö stæði sem borgin býður handan við hornið. Fréttablaðið/Valli
„Sendiráðið getur ekki fallist á að bílastæðin framan við sendiráðið verði lögð niður og í stað þeirra komi tvö bílastæði á Smiðjustíg,“ segir Mette Kjuel Nilsen, sendiherra Danmerkur á Íslandi, í bréfi til Reykjavíkurborgar.

Fram kemur í bréfi sendiherrans að skipulagssvið borgarinnar hafi kynnt fyrirhugaðar breytingar á Hverfisgötu í bréfi og samtali í mars og apríl í vor. Bjóða á sendiráðinu bílastæði við vesturmörk lóðarinnar á Smiðjustíg.

„Lausnin sem lögð er til hefur í för með sér að það er ekkert stæði við sendiráðið til að ferma og afferma bíla auk þess sem ekki yrði beinn aðgangur að sendiráðinu frá bílastæði á Smíðustíg. Við viljum halda bílastæðunum eins og nú er,“ skrifar sendiherrann sem einnig hefur efasemdir um trjáræktaráform borgarinnar við Hverfisgötu.

„Gróðursetja á þrjú tré á gangstéttinni framan við garð sendiráðsins. Í garði sendiráðsins út að Hverfisgötu eru fimm tré í dag. Það lítur því ekki út fyrir að nauðsynlegt sé að taka pláss undir fleiri tré á gangstéttinni,“ segir í bréfi sendiherrans danska.

Þó undirstrikar Mette Kjuel Nilsen að sendiráðið hlakki til breytingarinnar sem fegra muni Hverfisgötu umtalsvert og að það vilji gjarnan hafa samstarf um málið.

Bréf sendiherrans, sem ritað er á dönsku, var á miðvikudag lagt fyrir umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar. Þaðan var bréfið sent til athugunar hjá embættismönnum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.