Innlent

Áhersla á vistvænar samgöngur

Brjánn Jónasson skrifar
Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó, og Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, handsala samninginn.
Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó, og Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, handsala samninginn. Mynd/Strætó
Símafyrirtækið Nova varð í gær hundraðasta fyrirtækið til að gera samgöngusamning við Strætó bs.

Með samningnum geta starfsmenn notað skattfrjálsan styrk frá vinnuveitanda til að nýta vistvæna samgöngumáta.

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó, og Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, skrifuðu undir samninginn í gærmorgun.

Starfsmenn fyrirtækjanna 100 geta keypt strætókort á betra verði, og nýti þeir almenningssamgöngur eða vistvæna samgöngumáta þurfa þeir ekki að telja fram samgöngustyrk að upphæð allt að 7.000 krónur á mánuði.

Í tilkynningu frá Strætó segir að það séu ekki aðeins fyrirtækin sem hagnist á þessu fyrirkomulagi með auknum þægindum, meira hagræði og betri starfsanda, heldur hagnist samfélagið allt. Almenningssamgöngur séu mikilvægur þáttur í að fækka einkabílum á götunum og létta umferð fólks og farartækja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×