Innlent

Telur lífeyrissjóði geta sótt milljarða til matsfyrirtækja

Brjánn Jónasson skrifar
Sigurður Örn Ágústsson segir lífeyrissjóðina hafa sýnt því lítinn áhuga að fara í mál við matsfyrirtækin.
Sigurður Örn Ágústsson segir lífeyrissjóðina hafa sýnt því lítinn áhuga að fara í mál við matsfyrirtækin. Fréttablaðið/GVA
Íslensku lífeyrissjóðirnir eiga möguleika á að endurheimt tug eða tugi milljarða króna sem þeir töpuðu í hruninu haustið 2008 með því að höfða mál gegn erlendum matsfyrirtækjum.

„Það er ekki bara skynsamlegt heldur líka skylda lífeyrissjóðanna að láta á þetta reyna til fulls,“ skrifar Sigurður Örn Ágústsson, framkvæmdastjóri og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, í grein í Fréttablaðinu í dag.

Í greininni rekur Sigurður hvernig hann hefur reynt að aðstoða bandaríska málflutningsstofu við að komast í samband við lífeyrissjóðina, og leiða þeim fyrir sjónir það tækifæri sem gæti falist í slíkum málaferlum.

„Lífeyrissjóðirnir hafa að mínu mati sýnt málinu lítinn áhuga,“ skrifar Sigurður.

Stóru matsfyrirtækin þrjú, Standard og Poor's, Fitch Ratings og Moody's, ofmátu öll verulega styrkleika íslensku bankanna fyrir hrun og vanmátu áhættuna sem stjórnendur þeirra tóku. Mat fyrirtækjanna hafði áhrif á hvort verðbréf og skuldabréf voru keypt, seld eða haldið.

Íslensku lífeyrissjóðirnir töpuðu um það bil fimmtungi eigna sinna í hruninu. Sigurður segir að áætlað sé að um helmingurinn, um 150 milljarðar króna, hafi verið hlutabréf í íslensku bönkunum.

Sigurður segir í grein sinni að matsfyrirtækin hafi að undanförnu tapað málum og samið um bætur við erlend fyrirtæki og sjóði sem hafi sett fram bótakröfur vegna skaðlegrar ráðgjafar fyrirtækjanna fyrir hrun.

Það mun kosta allt að 200 þúsund Bandaríkjadali, tæpar 23 milljónir króna, að fara í saumana á samskiptum matsfyrirtækjanna og lífeyrissjóðanna. Leiði matið í ljós að ekki séu efni til málshöfðunar leggst ekki meiri kostnaður á lífeyrissjóðina, skrifar Sigurður.

Ákveði sjóðirnir að fara í mál þurfi að fjármagna málaferli í Bandaríkjunum, sem geti verið afar kostnaðarsöm og langdregin. Sjóðir sem sérhæfa sig í að fjármagna slík málaferli hafa þegar gefið til kynna að þeir vildu fjármagna málaferlin gegn hlutdeild í ávinningi, skrifar Sigurður.

„Ég hef talað um þetta fyrir daufum eyrum stjórnmálamanna og fyrirsvarsmanna í lífeyrissjóðakerfinu. Finnst virkilega engum skipta máli hvort hægt sé að endurheimta tug eða tugi milljarða í lífeyrissjóðakerfið?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×