Innlent

Mjólkursamlagið á Akureyri hefur keyrt á steinolíu sem varaafli fyrir vinnslu

Sveinn Arnarsson skrifar
Kristín Halldórsdóttir.
Kristín Halldórsdóttir.
Kristín Halldórsdóttir, mjólkurbússtjóri MS á Akureyri, segir fyrirtækið kaupa skerðanlega orku og eiga þar af leiðandi á hættu að flutningur til fyrirtækisins sé takmarkaður á tíma þegar raforka er ekki nægjanleg.

Fjallað er um takmarkað framboð á raforku í Eyjafirðinum í Fréttablaðinu í dag.

„Við höfum keyrt steinolíukatla til að búa til gufu til þess að framleiða vörur. Fyrir það fyrsta er steinolía fjórum sinnum dýrari en rafmagn. Þar fyrir utan krefst steinolíuketillinn meiri mannafla og yfirvinnu auk þess sem afköstin eru mun minni en hjá rafskautskatlinum sem við erum alla jafna með í vinnslu,“ segir Kristín. 

„Þegar við keyrum á steinolíu höfum við því verið að framleiða minna en ella, með meiri tilkostnaði og fleiri starfsmönnum. Umhverfislega er þetta einnig óheppilegt og gengur gegn umhverfisvitund okkar.“

Unnsteinn Jónsson
„Okkur stendur ekki til boða tryggur raforkuflutningur“

Unnsteinn Jónsson, verksmiðjustjóri Vífilfells á Akureyri, segir raforkuflutninginn setja starfsemi fyrirtækisins nokkrar skorður.

„Við höfum verið að keyra á olíu í vor sem og síðasta vor. Við kaupum trygga orku en ótryggan flutning. Flutningurinn á raforkunni er þannig að okkur stendur ekki til boða að kaupa trygga raforkuflutninga frá Landsneti því byggðalínan býður ekki upp á það. Þetta setur okkur í afar erfiða stöðu,“ segir Unnsteinn.

Unnsteinn telur að bæjarstjórn Akureyrar verði að skoða gaumgæfilega stöðu raforkuflutnings inn á svæðið.

„Maður áttar sig ekki á því hvernig þetta getur gengið til lengdar. Við getum ekki ætlast til að raflínur séu settar í jörðu hjá okkur en skammast í Skagfirðingum yfir sömu kröfu.“


Tengdar fréttir

Ekki nægt framboð raforku í Eyjafirði

Ný fyrirtæki geta ekki sest að á Eyjafjarðarsvæðinu því raforkan er ekki til. Flutningurinn inn á svæðið er vandamálið. „Sveitarfélögin draga lappirnar,“ segir forstjóri Landsnets.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×