Innlent

Lögðu ekki gildru fyrir Alþingi

Freyr Bjarnason skrifar
Maríus Sigurjónsson og félagar í samninganefnd Flugvirkjasambandi Íslands við samningaborðið.
Maríus Sigurjónsson og félagar í samninganefnd Flugvirkjasambandi Íslands við samningaborðið. Fréttablaðið/GVA
Maríus Sigurjónsson, formaður samninganefndar Flugvirkjasambands Íslands, segir það fjarri lagi að atburðarásin á miðvikudag hafi verið fyrir fram ákveðin. Eftir að hafa verið kallað saman úr sumarfríi ræddi Alþingi um hugsanlega lagasetningu á fyrirhugað verkfall flugvirkja hjá Icelandair.

„Ég hef heyrt gagnrýnisraddir um að þetta hafi verið fyrir fram plott. Þetta var ekki þannig sett upp af okkar hendi. Ef einhver heldur að við höfum verið að veiða Alþingi í gildru þá sáu þeir alveg um að spenna þá gildru upp sjálfir,“ segir Maríus.

Hann greinir frá því að eini glugginn sem flugvirkjar fengu til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við þingið og þingmenn hafi verið eftir fyrstu umræðu á fundi umhverfis- og samgöngunefndar.

„Þetta er sá tími sem okkur er skammtaður til að hafa áhrif á ákvörðun þingsins. Við notuðum hann vel að okkar mati. Svo sáum við nefndarálitið sem var jákvætt fyrir lagasetningu og eftir það byrjuðu umræðurnar aftur. Þá ákváðum við að aflýsa verkfallinu í staðinn fyrir að fá lög og gerðardóm. Það myndi þýða eitt til tvö ár í frosti í samskiptum [við Icelandair] og eitt til tvö ár í kjaraeyðimörk fyrir okkar félagsmenn. Við vorum ekki tilbúnir í þann fórnarkostnað alveg strax,“ segir hann.

„Ég hef heyrt að einhverjir þingmenn hafi kvartað en þetta er bara kostnaður þess að hafa lýðræði.“

Flugvirkjar funda næst hjá Ríkissáttasemjara eftir helgi. Að sögn Maríusar munu þeir halda frið næsta mánuðinn til að gefa færi á samningum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×