Innlent

Hólmarar kveðja plastpokana

Svavar Hávarðsson skrifar
Menja Von Schmalensee
Menja Von Schmalensee

Stefnt er að því að gera Stykkishólm að fyrsta sveitarfélaginu á Íslandi þar sem burðarplastpokar munu ekki fást í verslunum. Tilraunaverkefni sem hefur þetta að markmiði lýtur einnig að því að þekkingin sem fæst í sumar nýtist öðrum sveitarfélögum til að fylgja í kjölfarið.

Menja von Schmalensee, líffræðingur og formaður umhverfishópsins, segir að skili verkefnið tilætluðum árangri muni Hólmarar hætta notkun á burðarplastpokum í öllum verslunum í sveitarfélaginu í byrjun september.

Spurð um viðbrögð fólks í sveitarfélaginu segir Menja þau almennt góð, en mikið vatn eigi enn eftir að renna til sjávar áður en hægt verði að fullyrða um árangur verkefnisins.

eftir skemmtanahald Allir Íslendingar þekkja myndir sem þessa og hlut plastsins í ruslaraskap landans. fréttablaðið/daníel

Undirbúningsvinnan sé vissulega hafin og gengur vel, en áður en umskiptin fara fram verði að svara því hvað koma eigi í staðinn fyrir plastið. Bæði er þörf fyrir lausnir fyrir verslun og ekki síður við sorplosun. Varðandi innkaupin kemur margt til greina, s.s. fjölnota pokar, pappírspokar og maíspokar. Þegar kemur að sorplosun hefur hópurinn leitað samstarfs við Íslenska gámafélagið, og geta maíspokar verið góð lausn í þeim efnum.

Einstakar verslanir hafa tekið hópnum vel, en hafa skal hugfast að stjórnendur verslana í Stykkishólmi sitja oft í Reykjavík, t.d. Vínbúðarinnar, Lyfju og Bónuss. Þess vegna teygir verkefnið sig vel út fyrir bæjarmörkin.

Menja segir að verkefnið snúist ekki síst um hugarfarsbreytingu, og sé hugsað í mun stærra samhengi en bara fyrir Stykkishólm. Styrkur ráðuneytisins fékkst t.d. á þeim forsendum að vinnan myndi nýtast á fleiri stöðum í framhaldinu, sem segir nokkuð um vilja stjórnvalda um hvað koma skal.

„Vonin er að verkefnið muni nýtast öðrum til að taka þetta skref. Þetta er ákaflega spennandi og gaman verður að sjá hvernig þessu vindur fram,“ segir Menja og minnir á í þessu samhengi að það sé löngu tímabært að hætta notkun burðarplastpoka. Ýmis erlend sveitarfélög, landshlutar og jafnvel heilu löndin séu komin vel á veg með að banna notkun burðarplastpoka með öllu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.