Innlent

Styrkur að koma úr ólíkum áttum

Freyr Bjarnason skrifar
 Það var S. Björn Blöndal sem tilkynnti Dag B. Eggertsson sem næsta borgarstjóra í Reykjavík. Sóley Tómasdóttir og Halldór Auðar Svansson standa sitthvorum megin við þá.
Það var S. Björn Blöndal sem tilkynnti Dag B. Eggertsson sem næsta borgarstjóra í Reykjavík. Sóley Tómasdóttir og Halldór Auðar Svansson standa sitthvorum megin við þá. Fréttablaðið/Vilhelm
Samstarfssáttmáli nýs meirihluta borgarstjórnar sem er myndaður af Samfylkingunni, Bjartri framtíð, Vinstri grænum og Pírötum var kynntur í miklu blíðviðri í Elliðaárdal í gær.

„Þetta leggst mjög vel í mig,“ segir Dagur B. Eggertsson, sem verður nýr borgarstjóri Reykjavíkur. „Ég held að það sé styrkur að þessi hópur kemur úr ólíkum áttum og þannig er borgin svolítið líka. Við ætlum að spila svolítið á breiddinni.“

Spurður út í staðsetningu fundarins í Elliðaárdal segir hann að dalurinn sé einn sá fallegasti í Reykjavík. „Ég held að við eigum öll okkar tengingar við Elliðaárdalinn. Ég er svolítið alinn hér upp og þetta er einn af mínum leynistöðum. Það er erfitt að velja stað í Reykjavík sem sameinar alla en Elliðaárdalurinn er einn af þeim.“

Í sáttmálanum segir að virðing fyrir öllu fólki, komandi kynslóðum og náttúrunni verði sett í öndvegi. Borgin mun beita sér fyrir því að 2.500 til 3.000 leigu- og búseturéttaríbúðir fari í uppbyggingu í Reykjavík á næstu þremur til fimm árum. Gagnsæi og aukið íbúalýðræði er eitt af meginverkefnum kjörtímabilsins.

S. Björn Blöndal úr Bjartri framtíð verður formaður borgarráðs, Sóley Tómasdóttir úr Vinstri grænum forseti borgarstjórnar og Píratinn Halldór Auðar Svansson, formaður nýrrar stjórnkerfis- og lýðræðisnefndar. Björn segir að meirihlutaviðræðurnar hafi gengið mjög vel. „Það hafa alls kyns ágreiningsmál komið upp en okkur hefur gengið mjög vel að komast að sameinlegri niðurstöðu. Við vorum mjög hreinskilin allan tímann og byrjuðum á að taka á erfiðustu málunum.“

Sóley er sátt við nýja sáttmálann og líst vel á samstarfið. „Ég held að við eigum eftir að bæta hvert annað upp. Við höfum tiltölulega ólíkar áherslur en eins og segir í innganginum að málefnasáttmála okkar þá er markmið okkar að við verðum stærri en summan af pörtunum okkar.“

Píratar eru í fyrsta sinn í borgarstjórn og sömuleiðis í meirihlutasamstarfi. Halldór er ánægður með hversu mikið af málum Pírata eru inni í sáttmálanum. „Lykilatriðið í svona samstarfi er að fólk nái vel saman og líki hverju við annað. Það hefur ekki verið vandamál hingað til.“

Ný borgarstjórn tekur við á borgarstjórnarfundi sem verður haldinn næstkomandi mánudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×