Innlent

Akurnesingar vilja fá lögreglustjóra á Skagann

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Akurnesingar eru andsnúnir hugmyndum innanríkisráðuneytisins um að sýslumaður Vesturlands verði í Stykkishólmi og lögreglustjórinn í Borgarnesi.
Akurnesingar eru andsnúnir hugmyndum innanríkisráðuneytisins um að sýslumaður Vesturlands verði í Stykkishólmi og lögreglustjórinn í Borgarnesi. Fréttablaðið/GVA
Akraneskaupstaðar mótmælir harðlega þeim hugmyndum sem liggja fyrir hjá innanríkisráðuneytinu um staðsetningu höfuðstöðva sýslumanns- og lögreglustjóraembætta á Vesturlandi. Hvorki er gert ráð fyrir að lögreglustjóri né sýslumaður verði staðsettur á Akranesi.

Í hugmyndum ráðuneytisins um væntanlegar breytingar á starfsemi lögreglu- og sýslumannsembætta er gert ráð fyrir að aðsetur sýslumanns verði í Stykkishólmi og aðsetur lögreglustjóra í Borgarnesi.

Akranes er langfjölmennasti byggðarkjarninn á Vesturlandi með tæplega 7.000 íbúa og að auki er Grundartangi í næsta nágrenni við kaupstaðinn og þar eru á annað þúsund manns daglega við störf. Auk þess eru tvær hafnir með mikla starfsemi á svæðinu.

Lögreglustjóraembættið lágmarkskrafa

Akraneskaupstaður gerir kröfu um að lögreglustjóraembættið, hið minnsta, verði staðsett á Akranesi. Langfjölmennasta lögregluliðið á Vesturlandi er á Akranesi, þar er eina lögreglustöðin á svæðinu með sólarhringsvakt enda er málafjöldinn langmestur þar.

Miðlæg rannsóknardeild fyrir allt Vesturland hefur verið staðsett á Akranesi frá árinu 2007 þar sem byggst hefur upp mikil sérþekking og nauðsyn þess að hafa yfirstjórn lögreglu og rannsóknardeild á sama stað er augljós og öllum kunn, segja Akurnesingar.- jme




Fleiri fréttir

Sjá meira


×