Innlent

Meirihlutar að myndast á höfuðborgarsvæðinu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Ef þær meirihlutaviðræður sem eru nú í gangi á höfuðborgarsvæðinu ganga eftir mun Sjálfstæðisflokkurinn vera í meirihluta í öllum sveitarfélögum nema í Reykjavík.
Ef þær meirihlutaviðræður sem eru nú í gangi á höfuðborgarsvæðinu ganga eftir mun Sjálfstæðisflokkurinn vera í meirihluta í öllum sveitarfélögum nema í Reykjavík. vísir/sigurjón
Reykjavík er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er ekki í meirihlutaviðræðum en oddvitar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata hafa fundað síðustu daga og skoða nú kosningaloforð og málefnaáherslur flokkanna.

Í Hafnarfirði hafa formlegar viðræður bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar hafist en ekki tókst að mynda samstarf allra flokka eins og Björt framtíð hafði boðað með hugmynd sinni um þjóðstjórn, bæði fyrir og eftir kosningar.

„Við höfum rætt í þrjá daga við oddvita allra flokka og eftir þá fundi kom í ljós að það gengi ekki. Við komum aldrei öllum hópnum saman til að ræða málið,“ segir Guðlaug Kristjánsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar, en flokkurinn er í lykilstöðu til að mynda meirihluta.

Guðlaug segir að hún hafi mætt því viðmóti frá öllum flokkum að mikilvægt væri að hafa minnihluta og meirihluta og að hugmynd um þjóðstjórn væri fjarstæðukennd. Hún segir viðræður við Sjálfstæðisflokk ganga vel en ekki hafi enn verið rætt hvort hún eða Rósa Guðbjartsdóttir fái borgarstjórastólinn.

Guðlaug Kristjánsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði, segir ekki hafa tekist að kalla hópinn saman og mynda þjóðstjórn.
Oddvitar Vinstri grænna og Samfylkingar í Hafnarfirði eru ekki sammála þessari greiningu Guðlaugar. Þau segjast bæði hafa verið tilbúin að ræða samstarf allra flokka og því hafi hugmyndin alls ekki strandað hjá þeim. 

„Það hafa aðeins farið fram óformlegir fundir og aldrei með öllum flokkum. Þau í Bjartri framtíð hafa greinilega ekki treyst sér til að reyna þetta til þrautar,“ segir Guðrún Ágústa Guðlaugsdóttir, oddviti Vinstri grænna og fráfarandi bæjarstjóri. 

Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingar, tekur í sama streng. „Okkur er sagt að þetta hafi steytt á skeri,“ segir hann. „En hvaða sker það er, það er náttúrulega Sjálfstæðisflokkurinn.“ 

Í Garðabæ og á Seltjarnarnesi myndar Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta og í Kópavogi ræða Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð meirihlutasamstarf.

Í Mosfellsbæ gæti Sjálfstæðisflokkurinn myndað hreinan meirihluta en er þó í viðræðum við Vinstri græn um samstarf. Flokkarnir hafa unnið saman þar í bæ síðastliðin átta ár og er hugur í mönnum að halda því áfram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×