Lífið

Sigurvegari Ísland Got Talent á stóra svið Þjóðleikhússins

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
„Æfingarnar eru búnar að ganga mjög vel og mér líst alveg ofboðslega vel á Latabæ,“ segir hinn fimmtán ára Brynjar Dagur Albertsson, sigurvegari hæfileikakepninnar Ísland Got Talent sem sýnd var á Stöð 2 í vetur. Brynjar Dagur er nú kominn á samning hjá Þjóðleikhúsinu en hann fer með hlutverk í sýningunni um Latabæ sem frumsýnd verður í haust.

„Við sáum Brynjar eins og hálf þjóðin vinna Talentinn og þá hugsuðum við bara með okkur hvernig við gætum mögulega nælt í þennan dreng,“ segir leikstjóri Latabæjar, Rúnar Freyr Gíslason, um hinn hæfileikaríka Brynjar. „Nú er hann byrjaður að svitna á dansæfingum hjá Stellu Rósenkranz og það er klárt að fólk fær að sjá meira frá honum en það sá í Ísland Got Talent.“

Brynjar Dagur segir lífið í atvinnuleikhúsinu stórskemmtilegt. „Þetta er aðeins öðru vísi en ég bjóst við, meira fjölskyldulíf og töluvert skemmtilegra. Ég gæti vel hugsað mér að starfa í leikhúsi í framtíðinni.“

Brynjar Dagur hlaut 10 milljónir króna í verðlaunafé þegar hann vann hæfileikakeppnina.

Er hann nokkuð búinn að eyða öllum peningunum? „Nei, alls ekki. Ég er búinn að kaupa mér nokkra hluti, PlayStation 4 og einhver föt en annars verð ég að passa mig að eyða þessu ekki öllu saman,“ segir Brynjar Dagur hress að lokum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×