Innlent

Björt framtíð í viðræðum hægri og vinstri

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar í Reykjavík, ræðir meirihlutasamstarf við þrjá aðra flokka.
Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar í Reykjavík, ræðir meirihlutasamstarf við þrjá aðra flokka.
Í þremur stærstu sveitarfélögunum, Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, er Björt framtíð í meirihlutaviðræðum sem enn standa yfir.

Fulltrúar Bjartrar framtíðar og Samfylkingar í Reykjavík hafa alltaf gefið út að vilji sé fyrir meirihlutasamstarfi í borginni og hefur sú viljayfirlýsing haldist þrátt fyrir að meirihlutinn hafi fallið.

Viðræður eru á milli Sjálfstæðismanna í Kópavogi og Bjartrar framtíðar með sína tvo bæjarfulltrúa. Viðræðurnar hafa vakið furðu Framsóknarmanna en oddviti þeirra, Birkir J. Jónsson, segir að handsalað hafi verið að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur myndu ræða saman ef meirihlutinn héldi.

Guðlaug Kristjánsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði, er í lykilstöðu í bænum og gæti farið í meirihluta með Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki.
Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, segir að Björt framtíð hljóti að teljast líklegasti kosturinn til að mynda meirihluta með þar í bæ en Björt framtíð náði inn tveimur bæjarfulltrúum og gæti myndað meirihluta með bæði Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu. 

Björt framtíð bauð fram í fyrsta skipti í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum og fékk ellefu sveitarstjórnarfulltrúa í fimmtán stærstu sveitarfélögum landsins eða 7,5 prósent fulltrúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×