Innlent

Konur verja færri tímum í viku í sveitarstjórnarstörf

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Misjafnt er hvað kjörnir fulltrúar fá stóran skerf af nefndarstörfum og gæti fjöldi vinnustunda á viku tengst því.
Misjafnt er hvað kjörnir fulltrúar fá stóran skerf af nefndarstörfum og gæti fjöldi vinnustunda á viku tengst því. vísir/vilhelm
Konur segjast eyða færri klukkustundum á viku í sveitarstjórnarstörf en karlar, samkvæmt könnun sem Jafnréttisstofa gerði meðal kjörinna fulltrúa. Einnig virðist þeim ganga betur að samræma starfið fjölskyldulífinu.

Flestir svarendur verja 5-20 tímum í viku í sveitarstjórnarstörf eða 63 prósent svarenda. Mestur munur milli karla og kvenna er í neðsta og efsta valflokknum. 24 prósent kvenna verja að jafnaði 0-5 tímum í viku í störfin en 22 prósent karla segjast vinna meira en 20 tíma í viku.

Tryggvi Hallgrímsson, sérfræðingur á Jafnréttisstofu, segir þessar niðurstöður vissulega vekja fleiri spurningar.

„Það þarf að kanna hvort munur sé á verkefnum karla og kvenna sem gæti útskýrt þennan mun á vinnuframlagi,“ segir Tryggvi og bendir á að misjafnt sé hvað kjörnir fulltrúar fái stóran skerf af nefndarstörfum og fundarhöldum tengdum þeim.

„Einnig væri áhugavert að kanna hvort það séu tengsl á milli fjölskyldulífsins og vinnustundanna. Hvort konur eigi auðveldara með að samræma fjölskyldulífið vinnunni því vinnuframlag þeirra er minna eða hvort þær beri meiri ábyrgð á heimilinu sem komi svo niður á vinnuframlagi.“

Tryggvi Hallgrímsson, sérfræðingur á jafnréttisstofu, segir niðurstöður könnunarinnar vekja upp fleiri spurningar.
Ríflega fimmtíu prósent svarenda í könnuninni segjast óánægð með laun sín og á það við bæði kynin. Ekki er heldur kynbundinn munur á svörum fulltrúanna þegar þeir eru spurðir hvort þeir hafi gefið kost á sér til áframhaldandi starfa í sveitarstjórn. Um helmingur karla og kvenna segjast gefa kost á sér. Tryggvi segir þetta athyglisverða niðurstöðu í ljósi umræðunnar um hlut kvenna á framboðslistum. 

„Umræðan sem hefur verið í undanfara komandi kosninga hefur til dæmis snúist um hvort konum sé hættara til að hætta sveitarstjórnarstörfum. Þessi könnun sýnir að þær hafi sama vilja og karlarnir til að halda áfram þannig að það virðist ekki fótur fyrir því.“

Könnunin var send til 524 viðtakenda og alls svöruðu 267 eða 51 prósent. Meðal þátttakenda voru konur 46 prósent og karlar 54 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×