Innlent

Næst besti flokkurinn vill hækka launin

Sveinn Arnarsson skrifar
Oddvitinn telur líklegt að framboðið nái inn manni í sveitarstjórnarkosningunum.
Oddvitinn telur líklegt að framboðið nái inn manni í sveitarstjórnarkosningunum. Mynd/Arnar Halldórsson
Oddviti X-listans, Hjálmar Hjálmarsson, vill hækka lægstu laun bæjarstarfsmanna. Er það eitt af kosningaloforðum listans í kosningabaráttunni.

„Við leggjum áherslu á að Kópavogsbær taki sig alvarlega sem stærsti atvinnurekandinn í bænum og borgi mannsæmandi laun. 300 þúsund er lágmark að okkar mati,“ segir Hjálmar.

Hann telur líklegt að framboðið nái inn manni í sveitarstjórnarkosningunum á laugardaginn og að framboðið sé öðru vísi en önnur framboð í bænum.

„Sérstaða okkar felst fyrst og fremst í því að við höfum nákvæmlega engin tengsl við stjórnmálaflokkana á landsvísu þannig að við ráðum okkur sjálf og erum ekki bundin á klafa flokks eða foringjaræðis. Við höfum heldur engin bein hagsmunatengsl við fyrirtæki eða félög, sem þvælist óneitanlega oft fyrir í pólitíkinni,“ segir Hjálmar.

„Við viljum forgangsraða fyrir fólk en ekki steinsteypu. Við höfum geysigóða aðstöðu í bænum að flestu leyti hvað varðar íþróttir, menningu, leikskóla og grunnskóla. Nú er kominn tími til að verja peningunum í allt fólkið með þekkinguna og reynsluna,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×