Innlent

Hver klukkustund telur

Freyr Bjarnason skrifar
Upplýsingafulltrúi Icelandair segir ástandið mjög erfitt fyrir alla.
Upplýsingafulltrúi Icelandair segir ástandið mjög erfitt fyrir alla. Fréttablaðið/Anton
Icelandair hefur þurft að aflýsa að meðaltali fimm flugferðum á dag vegna þess að flugmenn fást ekki til að vinna yfirvinnu. Í gær var flugferðum til Pétursborgar, Seattle og Vancouver aflýst.

Eins og gefur að skilja er mikil gremja á meðal farþega Icelandair vegna þessa. „Það sem gerir þetta svona slæmt er að það er aldrei vitað með nógu miklum fyrirvara hvaða flug það er sem dettur út og þess vegna er ekki hægt að gera ráðstafanir af viti fyrir farþega,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. „Það blasir við að ef flugið þitt er fellt niður með skömmum fyrirvara eru það engin gleðitíðindi. Þetta er mjög erfitt ástand fyrir alla og geysilegt álag á starfsfólkið sem er að vinna bæði á flugvöllum og í þjónustuverinu hjá okkur.“

Ferðaþjónustuaðilar finna verulega fyrir ástandinu og að sögn Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, hefur þetta ofboðslega neikvæð áhrif á orðspor og ímynd ferðaþjónustunnar. „Þetta er að skila sér í enn meiri mæli til fjölmiðla erlendis og í umræðuna þar,“ segir hún.

„Það verður að tryggja öruggar samgöngur til og frá landinu. Það er grunnforsenda til að reka ferðaþjónustu á Íslandi, sem er stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsins. Ábyrgð samningaaðila er mjög mikil og við væntum þess að menn nái saman sem allra fyrst því hver klukkustund telur .“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×