Innlent

Allar líkur á verkfalli flugmanna á morgun

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Fari flugmenn Icelandair í verkfall í fyrramálið verður veruleg röskun á flugi.
Fari flugmenn Icelandair í verkfall í fyrramálið verður veruleg röskun á flugi. Fréttablaðið/GVA
Árangurslaus sáttafundur var í kjaradeilu flugmanna hjá Icelandair í gær. Sættir virðast ekki í sjónmáli. „Þetta horfir mjög þunglega og gengur mjög hægt,“ segir Hafsteinn Pálsson, formaður FÍA. Hann segir allar líkur á að verkfall hefjist á morgun.

Flugmenn Icelandair hafa boðað til 12 tíma verkfalls klukkan sex í fyrramálið takist ekki samningar. Í framhaldinu eru boðuð fimm tímabundin verkföll fram í næsta mánuð auk yfirvinnubanns sem tekur gildi klukkan sex í fyrramálið.

Verkfall gæti það raskað áætlunum um 7.000 farþega strax á morgun. Icelandair sendi tilkynningu til Kauphallarinnar vegna tjóns sem félagið gæti orðið fyrir vegna aðgerða flugmanna. Tjónið er sagt geta numið allt að 1,7 milljörðum króna.

Illugi Gunnarsson, starfandi innanríkisráðherra, segir enga ákvörðun hafa verið tekna um að setja lög á verkfallsaðgerðir flugmanna.

„Það er fylgst vel með þróun mála. Við vonum að samningar takist áður en verkfall skellur á,“ segir Illugi. Komi til lagasetningar þurfi Alþingi ekki langan tíma til að setja lög til að binda endi á aðgerðirnar.

Hafsteinn Pálsson, formaður FÍA, segir að flugmenn hafi rætt hugsanlega lagasetningu á yfirvofandi verkfall en segir enga ástæðu til að óttast það. „Við getum ekki verið hræddir við það. Það verður bara að koma í ljós.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×