Fótbolti

Erum sterkari en Malta á öllum sviðum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Freyr Alexandersson vill vinna Möltu og ekkert annað.
Freyr Alexandersson vill vinna Möltu og ekkert annað. Fréttablaðið/Villi
„Það fer vel um okkur hérna,“ segir Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta, í samtali við Fréttablaðið en í hádeginu að íslenskum tíma spila stelpurnar okkar við lágt skrifað lið Möltu í undankeppni HM 2015 ytra.

Ísland vann Ísrael, 1-0, um síðustu helgi og er á fínu róli í riðlinum eftir tap gegn Sviss í fyrsta leik.

„Ég er búinn að sjá leiki Möltu í riðlinum og við erum sterkari á öllum sviðum. Þær eru ekki í góðu formi og markvarslan hjá þeim er ekki góð. Það er einn leikmaður í liðinu miðað við það sem ég hef séð sem er í alþjóðlegum klassa,“ segir Freyr og er stefnan því að sjálfsögðu sett á sigur.

„Við sköpuðum okkur færi gegn Ísrael en voru mislagðir fætur upp við markið. Við viljum halda áfram að sýna sama uppspil. Það var gott að halda hreinu í síðasta leik en við þurfum að nýta færin betur á móti Möltu og skora mörk.“

Leikurinn fer fram á gervigrasvelli sem er við hliðina á flottum leikvangi með grasvelli.

„Það virðist ekki mikil virðing borin fyrir kvennaboltanum hérna fyrst þær eru látnar spila á gervigrasinu,“ segir Freyr en einnig er augljóst að Malta ætlar að spila inn á gervigrasið og hitann sem magnast upp á því að sögn Freys.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×