Innlent

EES gæti lent í frosti að hluta

Fréttaskýring: Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á Evrópuþinginu í Strassbourg. Í ljósi þess að kosningar til Evrópuþings standa fyrir dyrum og skipt verði út framkvæmdastjórn telur Birgir Ármannsson að ekki sé að vænta of mikils þrýstings á að lokið verði innleiðingu Evrópureglna um fjármálaeftirlit. "Það eru engin deadline að falla,“ segir hann.
Á Evrópuþinginu í Strassbourg. Í ljósi þess að kosningar til Evrópuþings standa fyrir dyrum og skipt verði út framkvæmdastjórn telur Birgir Ármannsson að ekki sé að vænta of mikils þrýstings á að lokið verði innleiðingu Evrópureglna um fjármálaeftirlit. "Það eru engin deadline að falla,“ segir hann. Nordicphotos/AFP
Enn standa yfir viðræður um leiðir til að leiða í lög á evrópska efnahagssvæðinu reglur Evrópusambandsins (ESB) um sameiginlegt eftirlit með fjármálastofnunum.

Sérfræðingar í Evrópurétti telja hömlur í vegi þess að hér verði innleidd lög og reglugerðir ESB, þar sem framselja þurfi ríkisvald til alþjóðlegra stofnana, stærri ógn við EES-samninginn en drátt á að hér verði gjaldeyrishöft afnumin og frjálsum fjármagnsflutningum komið á aftur.

Ríkisstjórnin kynnti í byrjun síðustu viku Evrópustefnu sem byggir á efldri hagsmunagæslu á vettvangi EES-samningsins og þar sem lögð er áhersla á skilvirka framkvæmd samningsins.

Hluti stefnunnar er að hraða upptöku gerða í EES-samninginn og rétta af innleiðingarhalla löggjafar eigi síðar en á fyrri hluta næsta árs. Ísland rekur sem stendur lestina í EES-samstarfinu í innleiðingu laga og reglna.

Margrét Einarsdóttir
Margrét Einarsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík, telur hömlur á fjármagnsflutninga líkast til enn falla innan ramma dóms EFTA-dómstólsins frá því í árslok 2011, þar sem höftin voru talin samrýmast EES-samningnum. 

Þegar dómur féll hafi enn verið taldar vera uppfylltar efnislegar ástæður til að grípa hér til verndarráðstafana í samræmi við fjórðu málsgrein 43. greinar EES-samningsins. 

„Ég held það sé alveg ljóst að gjaldeyrishöft standast seint ákvæði EES-samningsins að eilífu, en hversu lengi þau standast treysti ég mér ekki til að spá fyrir um.“ Höftin séu því ekki mánaðaspursmál, en til lengri tíma litið þurfi að vera áætlun um annað. 

Að mati Margrétar er meira áhyggjuefni að ekki hafi enn verið gerðar hér nauðsynlegar breytingar sem þurfi til að hægt sé að innleiða ákveðna afleidda löggjöf, reglugerðir og tilskipanir. 

„Það þarf að breyta stjórnarskránni og setja inn ákvæði um valdaframsal til alþjóðlegra stofnana til þess að hægt sé að innleiða ákvæði um bankaeftirlit á sviði fjármálaþjónustu. Annars væri ekki hægt að útiloka að ákveðinn hluti samningsins yrði bara settur í frost hjá okkur.“ 

Erfiðara sé að setja því ákveðinn tímaramma hvenær þurfi að vera búið að gera bragarbót í þessum efnum. „En samningurinn virkar ekki ef við hættum að geta innleitt afleidda löggjöf á einhverju sviði hans.“ 

Margrét bendir á að þótt framkvæmdastjórn ESB hafi enn ekki gripið til aðgerða vegna þessa, sé það bara pólitísk spurning á vettvangi Evrópusambandsins hvort til þess kunni að koma. 

„Við þurfum bara að laga þetta,“ segir hún. Eigi að byggja á EES-samningnum þá þurfi að vera hægt að taka hér upp þá löggjöf sem til sé ætlast á grundvelli hans.

Birgir Ármannsson
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir að eins og er sé ekkert mál á borði þingsins þar sem um sé að ræða núning eða árekstur vegna upptöku einstakra Evrópureglna. 

„Hins vegar hafa menn innan stjórnkerfisins verið lengi með þetta fjármálaeftirlitsmál í fanginu og raunar fleiri mál í pípunum sem vitað er að geti verið vandamál. En ég myndi ekki segja að útséð sé um að ekki finnist lausn í þeim efnum,“ segir hann og telur því mögulegt að í samstarfi við nágrannaþjóðir okkar finnist lausn sem geti verið samrýmanleg íslensku og eftir atvikum líka norsku stjórnarskránni, því þar sé líka um árekstur að ræða.

„Hitt er annað mál að þekkt eru nokkur dæmi frá undanförnum árum þar sem menn hafa verð á grensunni í þessum málum og það hefur ýtt undir umræðu um að eðlilegt væri að gera svipaða stjórnarskrárbreytingu hér og hefur verið gerð í flestum nágrannalöndunum, þar sem um væri að ræða heimild, með sérstakri aðferð, auknum meirihluta í þinginu, þjóðaratkvæðagreiðslu eða einhverju slíku, til þess að framselja afmarkaða þætti ríkisvalds á takmörkuðu sviði til alþjóðlegra stofnana,“ segir Birgir. 

Þessi umræða segir hann að eigi sér nú stað innan stjórnarskrárnefndarinnar sem forsætisráðherra hafi skipað í haust. „Þetta er eitt af þeim málum sem þar eru hvað efst á blaði.“ 

Valdaframsalsheimild í stjórnarskrá myndi hins vegar ekki endilega leysa vandkvæði tengd evrópsku fjármálaeftirliti. „Ekki eins og Evrópusambandið setur þetta upp vegna þess að þar er um að ræða framsal til stofnunar Evrópusambandsins, en ekki EES-stofnunar.“ Birgir segir að menn reyni hins vegar áfram að vinna sig í átt að lausnum. 

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur áður lýst sig andsnúinn því að breyta stjórnarskránni til að rýma fyrir fjármálaeftirliti ESB. „Ég tel fráleitt að við mundum hrökkva til og breyta stjórnarskránni út af þessari gerð ESB, það finnst mér alls ekki koma til greina,“ sagði hann í viðtali við Fréttablaðið í maí 2012. 

Í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál, á Alþingi 14. febrúar í fyrra sagði hann líka of litla umræðu hafa farið fram um breytingar sem orðið hafi á ESB. Hápólitískt mál sé hvernig ESB birtist í „síauknum mæli“ sem pólitískt bandalag sem stefni í átt að stórauknum samruna á allra næstu árum. 

Þó taldi hann of djúpt í árinni tekið að óttast að ESB gæti útilokað Ísland frá þátttöku í EES vegna þess að hér hefðu ekki verið teknar upp reglur um fjármálaeftirlit.

„Fyrst og fremst vegna þess að grundvöllur EES-samningsins er reistur á tveggja stoða kerfi,“ sagði hann þá.

Spyr um höft og áhrif á EES-samninginn
Framkvæmdastjórn ESB þarf að svara spurningum danska Evrópuþingmannsins Morten Løkkegaard 2. apríl í síðasta lagi.
Morten Løkkegaard, Evrópuþingmaður danska hægriflokksins Venstre, bíður svara frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um áhrif gjaldeyrishaftanna íslensku á Samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES).

19. febrúar síðastliðinn spurði hann hvort framkvæmdastjórnin hygðist gera breytingar á samningnum vegna brota Íslands á ákvæðinu um frjálst flæði fjármagns.

Hann velti því einnig upp hvort framkvæmdastjórnin teldi sig gæta hagsmuna fyrirtækja innan Evrópusambandsins sem hafi nú verið föst með fé innan hafta á Íslandi í hálfan áratug. Svara við fyrirspurninni er að vænta upp úr næstu mánaðamótum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×