Lífið

Fetað í dansspor Timberlakes

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Nanna Ósk Jónsdóttir ásamt dóttur sinni Maríu Kristínu L. Jónsdóttur, 6 ára, í DanceCenter Reykjavík.
Nanna Ósk Jónsdóttir ásamt dóttur sinni Maríu Kristínu L. Jónsdóttur, 6 ára, í DanceCenter Reykjavík. mynd/Daníel
Þegar sumri hallar lofar poppgoðið Justin Timberlake þokkafullum mjaðmahnykkjum og seiðandi danstöktum í Kórnum. Til að taka snúning með Justin gefst Íslendingum heillandi tækifæri á að læra sporin hans.

„Justin Timberlake er dansari af Guðs náð og einn fárra stórstjarna með meðfædda danshæfileika á við Michael Jackson,“ segir Nanna Ósk Jónsdóttir danskennari og eigandi dansskólans DanceCenter Reykjavík.

Skólinn hefur frá upphafi haft dansstíl Timberlakes í öndvegi.

„Blæbrigði DanceCenter eru öll í anda Timberlakes og frá fyrstu tíð höfum við fengið danshöfunda Justins til að kenna við skólann,“ segir Nanna og nefnir sem dæmi danshöfundana Darrin Henson og Dan Karaty sem einnig sat í dómarasæti í dansþáttunum „So You Think You Can Dance?“

„Sem dansari er Justin undir miklum áhrifum frá Michael Jackson og sækir sér innblástur þangað. Michael þróaði sinn eigin dansstíl sem margar poppstjörnur hafa tileinkað sér síðan en dansstíll Justins er líka blandaður hipp hopp-áhrifum og götudansi frá New York.“

Nanna Ósk segir fáa vita að Timberlake hafi ætlað sér að gerast dansari að atvinnu hefði hann ekki slegið í gegn sem tónlistarmaður.

„Öll up-beat-lög Justins (með hraðari takti) eru öll mjög dansvæn og samin með það í huga að fólk skelli sér á dansgólfið og fái útrás. Lagasmíðarnar eru kraftmiklar, fela í sér dansvæna stemningu og ekki spillir fyrir að textarnir eru innihaldsríkir og sungnir af frábærri rödd Justins,“ segir Nanna Ósk, sem búin er að tryggja sér miða á tónleikana sem fram fara í íþróttahöllinni Kórnum að kvöldi 24. ágúst í sumar.

„Það er alkunna að tónleikagestir taka sporið á tónleikum Justins Timberlake og ekki hægt annað en að verða fyrir áhrifum og dilla sér með stjórstjörnunni. Hægt er að læra flóknari útgáfu af dönsum Justins, sem er meira fyrir þá sem hafa eitthvað stundað dans áður, en einnig er hægt að tileinka sér sáraeinföld spor fyrir þá sem vilja tileinka sér „swagið“, svona helstu mjaðmahnykki og danstakta Justins.“



Í tilefni komu Justins Timberlake, einnar stærstu poppstjörnu veraldar, mun DanceCenter Reykjavík hita rækilega upp fyrir tónleikana með fjögurra vikna námskeiði í anda goðsins.

„Á námskeiðinu verður létt yfirbragð og partístemning í anda Justins Timberlake og dansgleðin í fyrirrúmi. Danskennarar skólans, Júlí, Nína og ég sjálf, eru vel inni í dansbakgrunni poppstjörnunnar og kenna sjóðheitar rútínur fyrir 16 ára og eldri og svo yngri hópa. Það eina sem þarf að gera er að hnýta á sig strigaskóna og mæta í partíið,“ segir Nanna Ósk, full tilhlökkunar.

„Við ætlum að skemmta okkur vel með þeim vinahópum sem ætla á tónleikana en einnig hverjum þeim sem vill læra að dansa í anda Justin Timberlake. Við förum hægt í danssporin til að byrja með en færum okkur svo yfir í flóknari dansspor fyrir þá sem vilja og skiptum í hópa eftir getustigi.“

Fyrsta námskeið hefst 11. mars og námskeiðum verður bætt við eftir þörfum. Skráning fer fram á www.dancecenter.is og upplýsingar um námskeiðið er að finna á Facebook. Einnig er hægt að senda tölvupóst á dancecenter@dancecenter.is og fá nánari upplýsingar í síma 7773658 hjá DanceCenter Reykjavík.

Smelltu á linkana hér fyrir neðan til að sjá sprenghlægilegt dansatriði með Justin Timberlake þar sem hann fer á kostum með söngkonunni Beyonce í skemmtiþættinum Saturday Night Live og annað sem sýnir dansfimi hans í tónleikum í New York.

Justin Timberlake og Beyonce í Saturday Night Live

Justin Timberlake á Future Sex Love-tónleikum í New York






Fleiri fréttir

Sjá meira


×