Erlent

Kosningarnar í Egyptalandi: „Þetta eru bara draumórar“

Hrund Þórsdóttir skrifar
Gríðarlegur viðbúnaður er í Egyptalandi vegna kosninga um nýja stjórnarskrá og fimm hafa látið lífið. Jákvæð niðurstaða myndi auðvelda yfirmanni hersins forsetaframboð en formaður Félags múslima á Íslandi segir um draumóra að ræða.

Múslimska bræðralagið hvetur fólk til að sitja heima en herinn leggur áherslu á að stjórnarskráin verði samþykkt og  borist hafa fregnir af handtökum á þeim sem reyna að tala gegn stjórnarskránni.

„Ég er mætt á kjörstað til að segja „já“ og ég vona að sem flestir láti sjá sig. Þetta er fallegur dagur, raðirnar eru langar og ég vona að allir samþykki því stjórnarskráin er hliðholl okkur, hún er hliðholl fólkinu,“ segir Sarah Gamal, egypskur kjósandi.

Margir eru á öðru máli og meðal þeirra er Amr Shaltoot, sem sniðgengur kosningarnar. „Ég held það muni koma í bakið á hernum að reyna  að stjórna almenningsálitinu í átt að samþykki. Margir munu eflaust hunsa kosningarnar því þeir búast við að stjórnarskráin verði samþykkt og sjá ekki tilgang í að mæta á kjörstað,“ segir hann.

5 hafa látið lífið vegna átaka í tengslum við kosningarnar og sprengt hefur verið, meðal annars við dómshús í fátækrahverfi í Kaíró í morgun.

Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi, býst ekki við lýðræðislegum kosningum. „Og þessi stjórnarskrá er alls ekki lýðræðislega gerð. Það var valinn 50 mann hópur af herforingjunum sjálfum, sem samdi stjórnarskrána. Þessi 50 manna hópur hélt einn fund í desember í einhverri höll og þar með var stjórnarskráin tilbúin, þeir skrifuðu bara undir hana,“ segir Sverrir.

Verði stjórnarskráin samþykkt auðveldar það Abdel Fattah al-Sisi, yfirmanni hersins, forsetaframboð. „Nasser og aðilar á eftir honum sögðust alltaf hafa góða stöðu en það var ekki nema kannski 5% fólksins sem studdi þá í raun og veru. Ég held það verði eins með Sisi, hann er að reyna að endurvekja Nasserismann, þetta er eiginlega stjórnarskrá Nasserisma og það er ekkert hægt að endurvekja Pinochet í Chile eða Nasser í Egyptalandi, þetta eru bara draumórar. Enda kallar eitt skáldið sem er í flokki með Mohamed ElBaradei þessa stjórnarskrá bara draum gamalla manna,“ segir Sverrir.


Tengdar fréttir

Um hvað er kosið í Egyptalandi?

Dregið verður úr möguleikum íslamista til að hafa áhrif á stjórn landsins, en staða hersins styrkt í nýrri stjórnarskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×