Enski boltinn

Krul ekki með Newcastle í næstu leikjum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Krul bættist á sjúkralista Newcastle.
Krul bættist á sjúkralista Newcastle. vísir/getty
Tim Krul, markvörður enska úrvalsdeildarliðsins Newcastle United, missir af næstu leikjum liðsins vegna ökklameiðsla sem hann varð fyrir á æfingu.

Rob Elliot stóð í markinu þegar Newcastle tapaði 1-0 fyrir West Ham í gær og Alan Pardew, knattspyrnustjóri Newcastle, sagði eftir leikinn að framhald yrði á því.

„Rob Elliot verður í markinu í næstu 4-5 leikjum,“ sagði Pardew.

Krul er ekki eini leikmaður Newcastle sem er á sjúkralistanum, en þar má finna leikmenn eins og Siem de Jong, Fabricio Coloccini, Davide Santon og Ryan Taylor.

Þá fór hollenski bakvörðurinn Daryl Janmaat af velli í gær vegna meiðsla.

„Við höfum lent í hverju áfallinu á fætur öðru, en við höfum komist yfir þau sem er lykilinn að góðu gengi okkar,“ sagði Pardew, en Newcastle tapaði loks í gær eftir fimm sigurleiki í röð.

Liðið situr í 8. sæti deildarinnar með 19 stig eftir 13 leiki. Newcastle sækir Burnley heim á þriðjudaginn í næsta leik sínum í úrvalsdeildinni.

Rob Elliot varði mark Newcastle gegn West Ham í gær.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×