Á annað hundrað björgunarmenn sinntu í dag fjölda útkalla í dag á suðvestur- og suðurhorni landsins er stormur gekk þar yfir. Búist er við að það skelli á með ofsaveðri á Vestfjörðum og Norðurlandi í kvöld.
Um hádegisbil voru fyrstu björgunarsveitarmennirnir kallaðir út vegna óveðursins. Nú búa björgunarsveitarmenn sig undir kvöldið en tekið er að hvessa á ný. Viðbragðsteymi eru tilbúin um allt land. Björgunarsveitirnar hafa þegar sinnt hátt í sjötíu útköllum þar á meðal við Höfðatorgið í Reykjavík þar sem plötur af grindverki tóku að fjúka í dag.
Friðrik Guðjónsson, björgunarsveitarmaður, var einn þeirra sem var kallaður út að Höfðatorginu. Hann segir aðstæður oft geta verið erfiðar þar þegar vindur er mikill „Það myndast strengir hérna í kringum háhýsin,“ segir Friðrik. Þá segir hann björgunarsveitirnar oft fá nokkuð löng og strembin útköll í vondum veðrum við Höfðatorgið og í Skuggahverfinu. Flest útköllin hafi snúið að fjúkandi lausamunum á borð við gáma og trampólín.
Síðdegis höfðu björgunarsveitir á Hellu, í Grindavík og Vestmannaeyjum, Árborg og í Vogunum verið kallaðar út. Mörgum viðburðum sem halda átti í dag var aflýst sökum veðurs enda var varað við því að vera á ferli.
Björgunarsveitarmenn kallaðir út víða um land
Tengdar fréttir

Búast við hættulegum vindhviðum
Búast má við því að vindhviður við fjöll verði hættulegar eftir hádegi og fari jafnvel yfir 50 metra á sekúndu þegar verst lætur.

Byrjað að hvessa á suðvesturhorninu
Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir suðaustanáttin sé vaxandi og víða sé farið að rigna.

Óveður í dag
Upp úr hádegi fer að hvessa verulega þegar vindhraðinn á að komast í 18-25 metrar á sekúndu og fylgir því talsverð rigning.

Snýst í suðvestan átt innan skamms
Dregið hefur úr vindhraða sunnanlands hann mun aukast á nýjan leik um og upp úr klukkan sjö.