Fótbolti

Drápu fyrirliða erkifjendanna eftir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Myndin tengist ekki fréttinni.
Myndin tengist ekki fréttinni. Vísir/Getty
Fyrirliði argentínsk fótboltaliðs lést af sárum sínum eftir að hafa orðið fyrir hópárás stuðningsmanna erkifjendanna í norðvesturhluta landsins.

Árásin afdrifaríka á fyrirliðann var gerð eftir að leik liðanna var hætt vegna slagsmála leikmanna inn á vellinum en leikurinn var argentínsku C-deildinni.

Franco Nieto var 33 ára gamall og fyrirliði Tiro Federal liðsins sem var þarna að spila á móti höfuðandstæðingum sínum í Chacarita.

Leikurinn fór fram um síðustu helgi en honum var hætt þegar tíu mínútur voru eftir eftir að leikmenn liðanna fóru að slást. Slagsmálin leystust upp á endanum og leikmenn róuðust en þessu var því miður ekki lokið.

Stuðningsmenn Chacarita voru enn mjög ósáttir og réðust á Franco Nieto sem reyndi að verjast múgnum en án árangurs.

„Það voru margir sem réðust á hann. Hann reyndi sitt besta að verja sig en það voru bara of margir sem kýldu hann niður og spörkuðu í höfuð hans," er haft eftir argentínsku lögreglunni.

Franco Nieto var fluttur á sjúkrahús en því miður tókst ekki að bjarga lífi hans.

Alls hafa fimmtán manns látist í tengslum við fótboltaleiki í Argentínu á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×