Enski boltinn

Byrjað að stækka Anfield á mánudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Anfield-leikvangurinn, heimavöllur enska úrvalsdeildarliðsins Liverpool, mun taka miklum breytingum á næstunni en ætlunin er að völlurinn taki 59 þúsund manns fyrir 2016-17 tímabilið.

Liverpool ætlar að eyða 100 milljónum punda, um 19,5 milljörðum íslenska króna, í verkefnið en þeir gátu farið af stað eftir að tókst að kaupa upp síðasta húsið sem stóð í vegi fyrir framkvæmdunum.

Anfield tekur 45.500 manns í sæti í dag og munu því vera búin að bætast við 13.500 sæti þegar framkvæmdum lýkur.

Liverpool sagði í dag að byrjað verið að stækka Anfield-leikvanginn á mánudaginn en fyrsta stigið er að bæta þriðju hæðinni við aðalstúku vallarins. Með því bætast við 8300 sæti.

Stúkan við Anfield Road verður seinna stækkuð um 4800 sæti. Í viðbót við þetta er ætlunin að betrumbæta umhverfið í kringum völlinn og minningarreiturinn um Hillsborough-slysið verður meðal annars færður til.

Liverpool hefur lengi leitað eftir leiðum til að eignast stærri heimavöll og um tíma voru uppi hugmyndir um að byggja upp nýjan leikvang. Niðurstaðan var hinsvegar að stækka Anfield en til þess þurfti félagið að kaupa upp húsin í kringum leikvanginn. Það tók sinn tíma.

Með þessum framkvæmdum kemst Anfield líka í hóp þeirra leikvanga sem geta hýst stórleiki á vegum UEFA, evrópska knattspyrnusambandsins.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×