Enski boltinn

United-menn bíða stressaðir eftir myndtökunni hjá Rooney

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United.
Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United. Vísir/Getty
Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United, var ekki með í gær þegar United vann 2-1 sigur á Stoke City á Old Trafford en þetta var fjórði sigurleikur liðsins í röð í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Rooney meiddist á hné á lokamínútunum í sigrinum á Hull á laugardaginn var en fyrirliðinn var búinn að skora í tveimur deildarleikjum í röð og í fjórum í röð ef við teljum með landsleikina tvo þar á undan.

„Hann fer í myndatöku og þá vitum við meira," sagði knattspyrnustjórinn Louis van Gaal eftir leikinn í gær.

„Ég vona að þetta séu ekki alvarleg meiðsli," sagði hollenski stjórinn og bætti við að hann greini nú ljós við enda ganganna en United hefur þurft að glíma við mýmörg meiðsli á þessari leiktíð.

Það má þó bóka það að stuðningsfólk Manchester United sem og allir sem koma nálægt félaginu bíða nú stressaðir eftir niðurstöðunum úr þessari hnérannsókn Wayne Rooney.

Wayne Rooney var ekki sá eini sem missti af Stoke-leiknum því Argentínumaðurinn Angel Di Maria, Englendingurinn Luke Shaw og Hollendingurinn Daley Blind voru ekki með í leiknum vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×