Fótbolti

Beckham fær aðvörun frá stjóra MLS-deildarinnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Don Garber, t.v., vill að Beckham fari að sýna að eitthvað sé að gerast.
Don Garber, t.v., vill að Beckham fari að sýna að eitthvað sé að gerast. vísir/getty
David Beckham, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Englands í fótbolta, þarf að fara að sýna að eitthvað sé í gangi hjá MLS-liðinu sem hann er að reyna að stofna í Miami.

Beckham hefur fengið formlega aðvörun frá framkvæmdastjóra deildarinnar, Don Garber, þess efnis en málefni nýrra liða verða tekin fyrir hjá stækkunarnefnd deildarinnar snemma á næsta ári.

Beckham hefur gengið illa að fá leyfi til að byggja 25.000 manna völl í Miami-borg, en tvær hugmyndir sem hann lagði fram ásamt sínu teymi um byggingu á velli voru slegnar út af borðinu hjá borgarstjórn Miami á þessu ári.

„Þetta getur ekki gengið svona endalaust,“ segir Garber um endalausar tafir á uppbyggingu Miami-liðsins. „Beckham-hópurinn er að reyna að finna lausn á þessu vandamáli með völlinn,“ bætir Garber við.

MLS-deildin stækkar ört næstu ár, en 20 lið verða í henni á næsta ári þegar New York City FC og Orlando City FC bætast í hópinn. Tveimur árum síðar kemur svo inn lið frá Atlanta og annað lið í Los Angeles.

Beckham hefur verið bent á að deila velli með liði úr NFL-deildinni, en það ætlar nýja Atlanta-liðið að gera.

Þar eru reyndar hæg heimatökin því eigandi fótboltaliðsins er sá sami og á NFL-liðið. Hann er að byggja völl sem tekur 65.000 manns í sæti á NFL-leikjum og minnkar í 25.000 sæta völl fyrir knattspyrnuleiki.

Leikvangur NFL-liðsins Miami Dolphins getur hýst knattspyrnuleiki, en þar fóru nokkrir vináttulandsleikir fram fyrir HM í sumar.

Beckham hefur þó sagst vilja byggja nýjan knattspyrnuvöll þannig liðið hafi eitt einkenni og sinn heimavöll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×