Enski boltinn

Mourinho stefnir ekki á árangur „The Invincibles“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea.
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að liðið sitt muni alltaf reyna að sækja sigra í stað þess að spila upp á jafntefli. Chelsea hefur leikið 21 leik í öllum keppnum á tímabilinu og enn ekki tapað leik. Chelsea mætir Tottenham í kvöld á heimavelli.

Auðvitað eru menn farnir að bera saman Chelsea-liðið í dag við Arsenal-liðið sem tapaði ekki leik tímabilið 2003-04. Arsenal var þá með 26 sigra og 12 jafntefli í 38 leikjum og fékk gælunafnið "The Invincibles" eða „Hinir ósigruðu“.

„Við erum ekki að stefna á að jafna það. Ef staðan verður enn 0-0 á móti Spurs þegar tuttugu mínútur eru eftir þá munum við ekki hugsa um að verja stigið til að vera enn taplausir. Ekki möguleiki," sagði Jose Mourinho við BBC.

Chelsea hefur unnið tíu leiki og gert þrjú jafntefli í fyrstu þrettán leikjum tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni. Arsenal-liðið frá 2003-04 var með nákvæmlega sama árangur eftir þrettán leiki en var þá aðeins með eins stigs forskot á Chelsea.

„Ef þú gerir tíu jafntefli þá færðu tíu stig. Ef þú vinnur fimm leiki og tapar fimm leikjum þá færðu fimmtán stig. Við munum spila til sigurs og stundum munum við tapa. Ég er sáttari með 15 stig og einhver töp en tíu stig og að vera enn ósigraður," sagði Mourinho.

Chelsea hefur sex stiga forskot á Manchester City þegar þriðjungur tímabilsins er að baki.

„Mælikvarðinn í fótboltanum er í því hve marga titla þú vinnur. Við verðum að reyna að breyta okkar frammistöðu og góðri spilamennsku í titla. Það er mikið eftir af mótinu. Eru lið sem eru 10, 12, 14 og 15 stigum á eftir okkur út úr í titilbaráttunni? Ég held ekki," sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×